Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, býst við að eiga einhver samtöl við oddvita annarra flokka í borginni síðar í dag um hugsanlegt meirihlutasamstarf.
Þetta sagði Einar við Fréttablaðið rétt fyrir hádegi þegar hann var spurður að því hvort það yrði hans frumkvæði að hafa samband við aðra oddvita.
Framsóknarflokkurinn fékk 18,7% atkvæða og fjóra fulltrúa kjörna í kosningunum í gær og er flokkurinn í lykilstöðu um myndun nýs meirihluta.
„Ég hef nú bara ákveðið að aðeins melta þessa stöðu og taka daginn í það. Ég geri ráð fyrir að það verði einhver samtöl, óformleg, bara til að spjalla um þessi mál, kannski seinni partinn í dag. Ég held við ættum að taka þessu rólega og láta þetta snúast um málefnin og fara inn í þessi samtöl með opinn huga. Við spurðum fyrir þessar kosningar hvort það væri ekki kominn tími á breytingar og kjósendur hafa svarað því með afdráttarlausum hætti.“
Ertu þá að tala um breytingar á meirihlutanum?
Já, breytingar á meirihlutanum og breytingar á stefnu borgarinnar í veigamiklum málum. Líka hinni pólitísku forystu.
Þú ert þá hálfpartinn að gagnrýna Dag, þannig að það er ekkert gefið, býst ég við, að þið farið í meirihluta með þeim?
„Það er ekkert gefið í þessu. Við höfum sagt þetta skýrt, reynt að vera sanngjörn í þessari kosningabaráttu, hrósa því sem vel er gert. Reykjavík er góð borg, það er margt sem þarf að laga og það eru mjög stórar áskoranir á næsta kjörtímabili; húsnæðismál, ýmis velferðarmál og við tökum það bara mjög alvarlega að svara því kalli sem við heyrum frá borgarbúum og aðalatriðið er að mynda meirihluta sem nær árangri fyrir borgarbúa. Ég er bara þakklátur fyrir stuðninginn og hlakka til að eiga þessi samtöl næstu daga.“
Einar segir að nú þurfi allir að ræða saman og segir hann að einu kröfurnar í samtölum hans við aðra oddvita verði krafan um að knýja fram breytingar í borginni.