Einari „Boom“ Marteinssyni, fyrrverandi forsprakka vélhjólasamtakanna Hells Angels, voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdar 7,5 milljónir króna í bætur.

Einar sat í gæsluvarðhaldi í rúmlega fimm mánuði fyrri part ársins 2012 en lögreglu lék grunur á að hann hefði gerst sekur um mjög alvarleg afbrot. Ekkert varð úr þeim málarekstri á hendur Einari.

Fram kemur í dómnum að Einar hafi glímt við áfallastreitu eftir fangelsisvistina og glími við varanlegan miska vegna líkamstjóns eftir vistina.

Skúli Magnússon héraðsdómari segir í dómi sínum að einkum vegna óvenju langrar gæsluvarðhaldsvistar við óforsvaranlegar aðstæður – en Einar var lengst af vistaður við óviðunandi aðstæður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg – skuli hann fá 7,5 milljónir í bætur.

Oddgeir Einarsson, lögmaður Einars, fékk 3,8 milljónir úr ríkissjóði fyrir rekstur málsins.