Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, segist ekki hafa hugsað það til enda hvað gerist ef samtökunum verði gert að endurgreiða 174 milljónir króna líkt og Sjúkratryggingar Íslands hafa gert kröfu um.

Að sögn Einars þyrfti SÁÁ að draga saman seglin og að skert þjónusta yrði líkleg niðurstaða. Hann segir þó erfitt að segja nákvæmlega til um hver áhrifin yrðu, „þetta er ekki komin á það stig að við erum farin að hugsa svo langt.“

Einar segir samtökin mjög sterk, eignastaðan sé góð og ef til þess kemur að endurgreiðslan standi gæti hugsanlega þurft að selja eignir. Hann ítrekar þó að samtökin séu ekki farin að hugsa svo langt.

Greint var frá því á föstudaginn að eftirlitsnefnd á vegum Sjúkratrygginga Íslands sem hóf skoðun á starfsemi SÁÁ í upphafi árs 2020 hefði nú lokið henni. Niðurstaðan voru meðal annars alvarlegar athugasemdir við þúsundir reikninga frá samtökunum og er málið komið á borð Landlæknis. Þá krefja Sjúkratryggingar SÁÁ um 174 milljón króna endurgreiðslu.

Vonast eftir fundi

Að sögn Einars er mál SÁÁ væntanlega á borði forstjóra eða stjórnar Sjúkratrygginga, nú þegar eftirlitsnefndin hefur lokið störfum sínum. Spurður um næstu skref gerir Einar ráð fyrir því að María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, kalli til fundar þar sem farið verði ítarlega yfir máli.

Einar segist hafa sent Maríu bréf síðastliðinn fimmtudag en að honum hafi ekki borist nein svör enn sem komið er. Hann gerir þó ráð fyrir að samtökin fái fund með Sjúkratryggingum til að koma sínum sjónarmiðum betur á framfæri.

„Allir hér innandyra eru mjög miður sín útaf því hvernig þessu er stillt upp,“ segir Einar og bætir við að samtökin hafi verið að gera það nákvæmlega sama og aðrar heilbrigðisstofnanir á því tímabili sem um ræðir þegar mestu takmarkanirnar voru vegna kórónuveirufaraldursins árið 2020.

Spurður segist Einar mjög bjartsýnn og á von á því að málið verði leiðrétt.

Útiloka ekki mistök við skráningu

Spurður út í athugasemdir eftirlitsnefndar Sjúkratrygginga segir Einar málið mjög sérstakt. Verið sé að refsta samtökunum fyrir það að reyna veita sem besta þjónustu á Covid tímum þegar takmarkanir voru sem mestar.

Einar segir hugsanlegt að einhver símtöl hafi verið ranglega skráð, „við erum ekkert að útiloka það. En við erum ekkert að tala um þúsundir símtala eða hundruði, við erum að tala um einhver tíu símtala eða eitthvað slíkt.“

En er ekki svolítið skrýtið að gera alvarlegar athugasemdir ef þetta eru bara nokkrar skráningar?

„Það er mjög skrýtið. Mjög skrýtið að gera athugasemdir að við þyrftum að loka göngudeildinni þegar allir aðrir lokuðu í mestu sóttvarnatakmörkunum sem voru árið 2020. Það var starfsfólk hjá heilsugæslunni sem var heima hjá sér að hringja út, við vorum þó með starfsfólkið hér á staðnum í vinnunni að hringja út. Við erum bara tekin út fyrir sviga í þessu öllu saman og refsað fyrir það að þjónusta okkar skjólstæðinga með öðrum hætti.“

Einar segist ekki efast um að einhver mistök gætu hafa átt sér stað. „En það sem þau eru að segja að þetta hafi kannski verið mörg þúsund tilhæfulaus símtöl sem bara stemmir ekki.“

Vogur kominn á fullt á ný

Að sögn Einars hefur niðurstaða eftirlitsnefndar ekki áhrif á þjónustu samtakanna, þó að nýjustu samkomutakmarkanirnar, geri það vissulega. Að sögn Einars er starfsemi Vogs komin aftur á fullt eftir að hafa þurft að loka tímabundið vegna fjölda Covid-19 smita.

Sem stendur sé starfsemin þó ekki í fullum afköstum vegna hólfaskiptingu útaf Covid-19, nú séu 40 manns á Vogi í stað 60 útaf hólfaskiptingunni.