Hrannar Fossberg er fangi á Litla-Hrauni og var í ágúst í fyrra ákærður fyrir tilraun til manndráps og vopnalagabrot fyrir að hafa skotið tvo einstaklinga í febrúar í fyrra og sært þau. Hann situr í fangelsi eins og stendur og afplánar eftirstöðvar dóms sem hann hlaut árið 2018.
Hrannar var í einangrun í sautján daga í febrúar í fyrra í fangelsinu að Hólmsheiði á meðan lögreglan rannsakaði brot hans. Hann var að jafnaði inni í einangrun í 23 klukkustundir á dag en átti svo að fá að fara út. Vegna veðurs reyndist það þó erfitt.
„Þegar ég var í einangrun þá var ekki hægt að fara út því það var svo mikill snjór og þeir vildu ekki moka,“ segir Hrannar og bendir á að samkvæmt reglum hafi hann átt rétt á útiveru sem hann fékk ekki að njóta.

Fimmtán daga eða lengur
Mannréttindasamtökin Amnesty International telja að einangrunarvist í gæsluvarðhaldi sé beitt óhóflega á Íslandi. Samkvæmt nýrri skýrslu samtakanna, Waking up to nothing: Harmful and unjustified use of pre-trial solitary confinement in Iceland, voru alls 825 einstaklingar vistaðir í einangrun á meðan þeir voru í gæsluvarðhaldi á tímabilinu 2012 til 2021.
Af þeim voru 99, eða tólf prósent, lengur í einangrun en fimmtán daga. Með því að beita einangrunarvist óhóflega telja samtökin að íslensk yfirvöld brjóti gegn samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu með alvarlegum afleiðingum fyrir sakborninga og rétt þeirra til sanngjarnra réttarhalda.
Einangrun er bara pyntingaraðferð og það er alveg búið að vera vitað í mjög langan tíma.
Í skýrslunni bendir Amnesty á að þó svo að einangrunarvist sé ekki með öllu bönnuð samkvæmt alþjóðalögum þá kveði þau á um að beiting hennar skuli heyra til algjörra undantekninga, hún skuli vara í sem skemmstan tíma og ávallt vera háð ströngum skilyrðum.
„Einangrunin er bara til að brjóta fólk niður. Í mínu máli nýtti ég þann rétt til að tjá mig ekki neitt og lögreglan nýtti þá sinn rétt til að hafa hana lengri og lengri, til að skemma mig,“ segir Hrannar sem segir það hafa verið alveg skýrt frá upphafi að hann hefði ekki ætlað að tala.
„En þetta er mannskemmandi. Ef þú ert ekki með sterkan huga fer þetta illa með fólk.“
Verndun rannsóknarhagsmuna
Bent er á í skýrslunni að helsta réttlæting yfirvalda á beitingu einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi sé verndun rannsóknarhagsmuna en Amnesty International lítur svo á að aldrei skuli beita einangrunarvist til þess eins að vernda rannsóknarhagsmuni lögreglu og segir það stríða gegn alþjóðlegri mannréttindalöggjöf um nauðsyn og meðalhóf.
Hann segir að hann telji það ekki hafa skipt máli fyrir rannsókn málsins að hann væri í einangrun.
„Meðan á einangruninni stóð var lögreglan ekki í raun með neitt í höndunum til að halda mér í einangrun, og það í meira en hálfan mánuð. Ég var búinn að fara í fjórar eða fimm skýrslutökur og það var alltaf það sama. Ég ætlaði ekki að tjá mig og það sagði enginn neitt í þessu máli,“ segir Hrannar og að hann telji ólíklegt að hann hefði á nokkrum tímapunkti getað spillt rannsóknarhagsmunum og að ef hann hefði ætlað sér það hefði hann allt eins getað gert það þegar einangruninni lauk.
„Einangrun er bara pyntingaraðferð og það er alveg búið að vera vitað í mjög langan tíma. Það er ekki eins og það sé búið að binda þig við stól og kveikja í kynfærunum á þér en aftur á móti þá er þessu jafnað við það. Fólk sem er óstöðugt í hausnum og er lengi í einangrun, það er ekki sama fólkið eftir það.“