Albönskum fjórmenningum, sem grunaðir eru um peningaþvætti, var sleppt úr haldi á miðvikudag að loknum yfirheyrslum, en fólkið var handtekið á Keflavíkurflugvelli 20. janúar og í kjölfarið úrskurðað í gæsluvarðhald. Þau eru nú í tilkynningarskyldu.
Fréttablaðið birti frétt um málið síðastliðinn mánudag og byggði hún á úrskurði Landsréttar í málinu, sem hefur síðan verið tekinn af vefsíðu dómstólsins. Í honum kom fram að fjórmenningarnir, þrjár konur og einn karlmaður, hefðu öll verið með þykk seðlabúnt í fórum sínum á leið úr landinu til Ítalíu. Lögregla grunar þau um peningaþvætti og telur peningana koma úr skipulagðri glæpastarfsemi, líkt og frá sölu fíkniefna.
Seðlabúntin innihéldu hvert nokkur þúsund evrur, frá fimm upp í níu þúsund. Lögmaður einnar konunnar, Gunnar Gíslason, bendir á að fólki sé leyfilegt að flytja allt að tíu þúsund evrur til annarra Evrópulanda án þess að gera grein fyrir þeim, þótt fólk verði að geta útskýrt uppruna þeirra. Í úrskurði Landsréttar kom fram að lögreglu þættu útskýringar fólksins ótrúverðugar.
Gunnar segir skjólstæðing sinn hafa búið hér á landi nokkra hríð ásamt kærasta sínum sem hafi unnið í byggingarvinnu áður en honum var vísað úr landi. Hún hafi setið eftir með peningana og ætlað með þá aftur til heimalandsins.
„Þau eru í leit að betra lífi og reyna síðan að taka peningana með heim,“ segir Gunnar.
Sjálf hafi hún ekki verið með neitt mál skráð hjá lögreglu, en einn fjórmenninganna, karlmaðurinn, var með eitt mál á borði lögreglu sem varðar fíkniefnabrot og peningaþvætti.
Hann lýsir gæsluvarðhaldi umbjóðanda síns, sem varði í tæpar tvær vikur, sem mjög erfiðum tíma fyrir hana. „Einangrunarvistin var algjört helvíti. Hún fékk ekki að tala við neinn nema fangaverði og mig, lögmanninn,“ segir hann og tekur fram að hann hafi heimsótt hana daglega.
„Hún hágrét fyrstu dagana,“ bætir Gunnar við, en honum tókst þó að koma henni í tíma hjá sálfræðingi og lækni og fékk kvíða- og svefnlyf hjá þeim, sem gerði dvölina bærilegri.
Verði málið fellt niður eða konan sýknuð segir Gunnar ríkið vera bótaskylt vegna þvingunaraðgerða lögreglu, það er að segja vegna handtöku, gæsluvarðhalds og einangrunar.
„Ef svo ólíklega vill til að málið fari á annan veg, þá kemur til greina að hafa uppi bótakröfu gegn ríkinu á þeim grundvelli að gæsluvarðhald og einangrun, á grundvelli meintra rannsóknarhagsmuna, hafi verið með öllu óþarft, brotið hafi verið gróflega gegn flestum meðalhófsreglum og að umbjóðandi minn hafi þurft að þola ómannúðlega og vanvirðandi meðferð með því að vera gert að sæta einangrunarvist,“ bætir hann við.
Þá bendir hann á bótakrafa gæti þá komið frá öllum fjórum sakborningunum, sem gæti kostað ríkið margar milljónir.
Gunnar gagnrýnir jafnframt meðferð stjórnvalda á Albönum. Hann segir þá til að mynda ekki fá tækifæri á að vinna hér á landi með löglegum hætti og þeir séu einnig litnir ákveðnu hornauga.
„Ég veit að lögregla er með horn í síðu Albana. Þau virðist líta á þá alla sem glæpamenn.“