Árásarmenn í skotárásum í Bandaríkjunum og Evrópu eiga margir sameiginlegt að vera einangraðir ungir menn. Hluti þeirra reyndu að leita sér hjálpar vegna geðrænna vandamála áður en þeir hófu skothríð.

„Einmanaleiki og félagsleg einangrun er eitur fyrir bæði líkama og sál,“ útskýrir Elín Ebba Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs og varaformaður Geðhjálpar.

Hún segir að einangrun breyti heilastarfsemi einstaklinga og að það megi rekja til tíma mannkynsins úti á sléttunum, þegar mikil hætta fylgdi því að vera einn á ferð.

Elín Ebba er gestur í Fréttavaktinni í kvöld.

„Þetta gerist enn í dag þótt engin sé að ráðast á okkur. Ef fólk er í mikilli einangrun fer hugsunin að breytast og ofsóknaræði að aukast og það heldur að einhver sé á eftir sér.“

Elín Ebba segir öll fyrirbyggjandi úrræði, sem koma í veg fyrir að fólk verði jaðarsett, skipa miklu máli í þessu samhengi.