Valdimar Númi Hjaltason, eða Númi eins og hann er kallaður, er fimmtugur og býr hjá öldruðum föður sínum vegna þjónustuskorts hjá ríki og sveitarfélagi.

Númi er á biðlista eftir húsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ en hann hefur ekki hugmynd um hvenær röðin kemur að honum þar sem biðlistarnir eru ekki fyrirsjáanlegir og enginn getur sagt til um númer hvað þú ert í röðinni.

Laugardagurinn 13. júlí árið 2019 átti upprunalega að vera gleðidagur í lífi Núma en hann hafði fengið pláss á frystitogara og var að fagna því. Um kvöldið fékk hann mikinn höfuðverk og endaði á bráðamóttökunni vegna hans.

Stanslausir verkir

Númi beið í tæpar þrjátíu klukkustundir eftir að þangað var komið eftir greiningu en í ljós kom að hann hafði fengið heilablæðingu sem leiddi niður í mænugöng. Þremur aðgerðum síðar endaði Númi í hjólastól í febrúar 2021.

Að sögn Núma er aðalvandamálið þeir stanslausu verkir sem hann býr við.

„Eina skiptið sem ég fæ frí frá verkjum er þegar ég ligg,“ segir Númi.

Sjálfsvígshugsanir

Í desember ári fyrr, 2020, hafði heilsu Núma hrakað mikið og sársaukinn orðinn óbærilegur. Í kjölfarið var hann sendur í myndatöku á Landspítala.

Þann 18. desember er honum síðan tilkynnt að ekkert væri hægt að gera fyrir hann.

Númi segist hafa farið inn í jólin og að honum hafi liðið óbærilega. Sjálfsmorðshugsanir hafi gert vart við sig á hverjum degi.

Allt þar til skurðlæknirinn hans hafði samband þriðja janúar og tjáð honum að mögulega væri hægt að gera eitthvað. Um miðjan janúar þurfti Númi á innlögn á Landspítala að halda vegna verkja og lá hann inni í um það bil þrjár vikur sem endaði á þriðju aðgerðinni í febrúar 2021 sem hjálpaði ekki sem skyldi.

Þannig þú íhugaðir að taka eigið líf?

„Alveg mörgum sinnum.“

Númi er með langt ör niður allt bakið eftir aðgerðir vegna heilablæðingarinnar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Lyfjafyllerí

Að sögn Núma hefur lítið verið hægt að gera fyrir hann nema dæla í hann lyfjum. „Þetta elskulega lyfjafyllerí sem manni er boðið upp á. Lyfin sem ég er á er nóg til að drepa heila fílahjörð.“

Númi segist þó sjálfur vera vinna í því að taka morfín lyfin út, þau séu hætt að virka. „Mér er jafn illt þó ég sé að taka þau nema ég verð hálfruglaður.“

Númi hefur fengið pláss á verkjasviði á Reykjalundi en hann fær innlögn í fimm til sex vikur. Þar mun Númi fá kennslu í að reyna lifa með verkjunum.

Endaði sambandið

Þegar Númi fékk heilablæðinguna hafði hann verið í sambandi í tæp sjö ár.

„Sambönd endast ekkert sérstaklega vel þegar annar aðilinn er í stanslausum sársauka,“ útskýrir Númi og bætir við að þetta hafi reynt mikið á sambandið.

„Sambönd endast ekkert sérstaklega vel þegar annar aðilinn er í stanslausum sársauka.“

„Ég sá það strax að ég gat ekki boðið henni upp á þetta. Mér leið eins og lífið mitt væri ónýtt og búið og ég væri bara ónýt manneskja,“ segir Númi og bætir við að hann hafi ekki getað tekið hana með í það ferli sem var að fara eiga sér stað.

Þau hafi ákveðið að vera vinir og Númi flutti út í nóvember síðastliðinn.

Númi veit ekki hversu lengi hann þarf að bíða eftir húsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Flutti til pabba

Númi segist heppinn að hafa fengið inn hjá föður sínum sem er 82 ára í kjölfarið og þar dvelji hann enn. Númi segir faðir sinn sem betur fer með góða heilsu og að hann aðstoði sig eftir fremsta megni.

„Þá byrjaði gamanið sem ég vissi alveg af. Ég vissi að þetta væri algjör hörmung en mér hefði aldrei dottið þetta í hug,“ segir Númi og vísar til húsnæðisvanda fatlaðra.

Húsnæðið sem faðir Núma býr er ekki kjörið fyrir einstakling í hjólastól en Númi þarf til að mynd að baða sig í Salalaug þar sem ekki er aðgengi fyrir það í íbúð föður hans.

Ófyrirsjáanlegir biðlistar

Númi er á biðlista eftir húsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ en hann segir kerfið algjörlega stíflað. „Það eru hundrað manns á biðlista – bara í Hafnarfirði og listinn hreyfist sáralítið.“

Þá er biðlistinn ekki venjulegur þar sem fólk færist ofar eftir því sem tíminn líður. Númi segist ekki hafa hugmynd um hvar hann standi gagnvart biðlistanum og að enginn geti sagt honum það.

Númi ber starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar söguna vel, þetta sé allt gott fólk „sem er að reyna sitt besta í erfiðum aðstæðum. Það er engin í kerfinu sem mér er illa við, þetta er allt yndislegt fólk sem starfar í vonlausu kerfi.“

Fáar íbúðir og þörfin mikil

Um miðjan desember síðastliðinn greindi Fréttablaðið frá því að fatlaðir Reykjavík og Hafnarfirði þyrftu að bíða að meðaltali í fjögur ár eftir húsnæði.

Í samtali við Fréttablaðið í desember sagði Jón Þór Víglundsson, fjölmiðlafulltrúi Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), kerfið ekki fyrirsjáanlegt. Biðlistanir væru ekki eins og gengur og gerist þar sem fólk færist upp.

Fatlað fólk geti ekki reitt sig á biðlistana og viti í raun ekkert hvar þau standi gagnvart þeim.

„Það eru alltof fáar íbúðir, þörfin er mikil og fer ekkert minnkandi,“ sagði Jón Þór.