Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn, segir allt of mörg dæmi þess að eina tenging þeirra sem smitist hér­lendis af kóróna­veirunni eða þurfi að fara í sótt­kví eftir nánd við smitaðan ein­stak­ling, sé að fólk hafi verið á djamminu. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Síðustu helgi gerði lög­reglan al­var­legar at­huga­semdir við starf­semi nokkurra veitinga-og skemmti­staða. Voru níu staðir af 24 ekki með nægi­lega góðar smit­varnir að mati lög­reglu og treystu lög­reglu­menn sér ekki inn á nokkra staði. Þá var veitinga­stað í mið­bæ Reykja­víkur lokað í vikunni vegna þessa.

Í út­varpinu í morgun bendir Víðir á að það sé ein­fald­lega stað­reynd að margir smitist þegar á­fengi er haft um hönd. Þá slakni á ein­stak­lings­bundnum sótt­vörnum.

„Við erum búin að sjá allt of mörg til­felli í smitrakningunni að eina sam­eigin­lega tenging aðila er djammið,“ segir Víðir. Hann tekur þó fram að hér eigi hann ekki einungis við skemmti­staði í mið­bæ Reykja­víkur og víðar.

„Það eru líka heima­partýin, einka­sam­kvæmi og annað slíkt, þannig það er alls ekki þannig að allir skemmti­staðir hafi verið ein­hverjar gróðra­stíur fyrir þessa veiru, alls ekki.“

Hann leggur á­herslu á að enginn ætli sér að brjóta gegn sótt­varnar­reglum. Flestir staðir hafi staðið sig með á­gætum og tekið vel í á­bendingar.

„Þetta snýst auð­vitað bara um að læra og gera vel og það er enginn þarna úti, eða þeir eru að minnsta kosti mjög fáir, sem segja: „Nú ætla ég að brjóta allar reglurnar og mér er alveg sama og ég ætla að dreifa þessari veiru,“ það er enginn þar. En menn auð­vitað mis­stíga sig og það er bara hluti af svona lær­dóms­ferli.“

Þá sagðist Víðir bera fulla sam­úð með skemmti­staða­eig­endum sem nú berjast í bökkum vegna rekstra­r­örðug­leika. Þannig bárust fregnir af því í Mogganum í morgun að öllu starfs­fóllki b5 hefði verið sagt upp. Engar tekjur hafi komið inn síðan í mars og rekstrar­staðan afar slæm.

„Þetta eru menn með húmor þó þeir séu í hörmu­legri að­stöðu, hugsið ykkur að vera í svona rekstri og svo koma þessar að­stæður og þá er al­gjör­lega öllu kippt undan þeim, þetta er náttúru­lega alveg hörmung fyrir þetta fólk sem stendur þarna á bak við,“ segir Víðir um eig­endur b5.

Hann leggur á það á­herslu að allir séu í sama liðinu. Einungis sé einn ó­vinur; veiran sjálf, þó hún snerti hópa mis­jafn­lega og menn upp­lifi mis­mikið þrengt að sér og sinni starf­semi.

„Við höfum verið að reyna að stýra þessu með þeim hætti að reyna að leyfa sem mest en öðru hefur verið settar þrengri skorður.“