Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, segir allt of mörg dæmi þess að eina tenging þeirra sem smitist hérlendis af kórónaveirunni eða þurfi að fara í sóttkví eftir nánd við smitaðan einstakling, sé að fólk hafi verið á djamminu. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Síðustu helgi gerði lögreglan alvarlegar athugasemdir við starfsemi nokkurra veitinga-og skemmtistaða. Voru níu staðir af 24 ekki með nægilega góðar smitvarnir að mati lögreglu og treystu lögreglumenn sér ekki inn á nokkra staði. Þá var veitingastað í miðbæ Reykjavíkur lokað í vikunni vegna þessa.
Í útvarpinu í morgun bendir Víðir á að það sé einfaldlega staðreynd að margir smitist þegar áfengi er haft um hönd. Þá slakni á einstaklingsbundnum sóttvörnum.
„Við erum búin að sjá allt of mörg tilfelli í smitrakningunni að eina sameiginlega tenging aðila er djammið,“ segir Víðir. Hann tekur þó fram að hér eigi hann ekki einungis við skemmtistaði í miðbæ Reykjavíkur og víðar.
„Það eru líka heimapartýin, einkasamkvæmi og annað slíkt, þannig það er alls ekki þannig að allir skemmtistaðir hafi verið einhverjar gróðrastíur fyrir þessa veiru, alls ekki.“
Hann leggur áherslu á að enginn ætli sér að brjóta gegn sóttvarnarreglum. Flestir staðir hafi staðið sig með ágætum og tekið vel í ábendingar.
„Þetta snýst auðvitað bara um að læra og gera vel og það er enginn þarna úti, eða þeir eru að minnsta kosti mjög fáir, sem segja: „Nú ætla ég að brjóta allar reglurnar og mér er alveg sama og ég ætla að dreifa þessari veiru,“ það er enginn þar. En menn auðvitað misstíga sig og það er bara hluti af svona lærdómsferli.“
Þá sagðist Víðir bera fulla samúð með skemmtistaðaeigendum sem nú berjast í bökkum vegna rekstrarörðugleika. Þannig bárust fregnir af því í Mogganum í morgun að öllu starfsfóllki b5 hefði verið sagt upp. Engar tekjur hafi komið inn síðan í mars og rekstrarstaðan afar slæm.
„Þetta eru menn með húmor þó þeir séu í hörmulegri aðstöðu, hugsið ykkur að vera í svona rekstri og svo koma þessar aðstæður og þá er algjörlega öllu kippt undan þeim, þetta er náttúrulega alveg hörmung fyrir þetta fólk sem stendur þarna á bak við,“ segir Víðir um eigendur b5.
Hann leggur á það áherslu að allir séu í sama liðinu. Einungis sé einn óvinur; veiran sjálf, þó hún snerti hópa misjafnlega og menn upplifi mismikið þrengt að sér og sinni starfsemi.
„Við höfum verið að reyna að stýra þessu með þeim hætti að reyna að leyfa sem mest en öðru hefur verið settar þrengri skorður.“