„Líkt og áður er þetta algjörlega í okkar höndum og eina leiðin til þess að takast á við þetta er að gera þetta saman.“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, ræddi á upplýsingafundi í dag um mikilvægi þess að stefna í sömu átt þó fólk geti deilt um hvernig bregðast eigi við aukinni útbreiðslu COVID-19.

„Það er mikilvægt að halda því til haga að við þurfum ekkert að vera sammála. Við þurfum að geta rætt hlutina og hugsað gagnrýnt og sett fram okkar sjónarmið án þess að verða eitthvað úthrópuð fyrir það. En að lokum þurfum við að stefna öll í sömu átt. Að minnsta kosti getum við verið sammála um þessar einstaklingsbundnu sýkingarvarnir.“

Þar á hann við þau margítrekuðu tilmæli þríeykisins um að fólk sé duglegt að þvo og sótthreinsa hendur og sameiginlega snertifleti ásamt því að halda tveggja metra fjarlægð hvar sem hægt er.

„Við viljum ekkert fara aftur þangað sem við vorum í mars og apríl.“

Þróunin svipuð og í mars

Níu innanlandssmit greindust hér á landi í gær og eru nú 91 einstaklingur í einangrun með virkt smit.

Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundinum að þróunin síðustu daga svipaði til þeirrar sem sást í byrjun mars. Þó sé meira um það núna að minna veikir einstaklingar séu að greinast og meira um yngra fólk.