Árið 2020 var ríflega 37 prósentum meiri raforkusala til gagnavera en til samtals allra heimila á Íslandi, samkvæmt tölum Orkustofnunar. Af þeirri raforku sem fer til gagnavera fer stór hluti í að grafa eftir rafmyntum.

Þetta þýðir með öðrum orðum að meiri raforka fer til gagnavera á Íslandi en sem nemur orkunni til allra heimila landsins, allra sjúkrahúsa, elliheimila og kirkna, allra leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, svo og allra skipa í höfnum landsins.

Í ljósi umræðunnar um fyrirsjáanlegan orkuskort á Íslandi segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, að greinilegt sé að sú raforka sem þegar er beisluð á Íslandi sé illa nýtt.

„Þetta sýnir að forgangsröðun í orkusölu er engin á Íslandi. Orka er mjög takmörkuð auðlind og við verðum að nýta hana á skynsaman og arðbæran hátt. Að fórna náttúruperlum Íslands sem eru einstakar á heimsvísu eingöngu til þess að grafa eftir rafmynt er ótækt,“ segir Auður.

Stór hluti raforku fer í rafmyntagröft í gagnaverum.

Orkunýting Íslendinga fær harðan dóm á lista breska tímaritsins Economist yfir verstu orkunýtingu á meðal þjóða heims (e. least efficient energy use). Á listanum er reiknað hversu mikla landsframleiðslu lönd fá fyrir hverja orkueiningu sem framleidd er. Þar trónir Kongó á toppi deildarinnar yfir verstu orkunýtinguna. Í öðru sæti er eyríkið Trínidad og Tóbagó en jöfn í þriðja til fjórða sæti eru Ísland og Mósambík.

Engin hefðbundin samanburðarlönd Íslands komast nálægt þessum slaka árangri í orkunotkun og segir Auður það benda til að orkufyrirtækin hafi gert afleita samninga fyrir hönd landsmanna við risastór alþjóðleg fyrirtæki og selji raforku til þeirra á slikk.

„Meirihluti raforkuframleiðslu á Íslandi er því bundinn í mjög óhagstæðum samningum við fyrirtæki sem aldrei hafa og munu ekki greiða tekjuskatt af hagnaði hér á landi. Þess vegna skapast litlar tekjur á hverja orkueiningu hér á landi,“ segir Auður sem telur íslenska náttúru hafa verið eyðilagða um alla framtíð eingöngu til að auka hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja.