Lyfjastofnun hefur borist ein tilkynning til viðbótar um tímabundna lömun eða skerta hreyfigetu sem hugsanlega aukaverkun við bólusetningu gegn Covid-19, samkvæmt skriflegu svari stofnunarinnar við fyrirspurnum Fréttablaðsins.
Í síðustu viku voru tilkynningarnar átta í heildina sem höfðu borist Lyfjastofnun. Ein tilkynningin varðar lömun fyrir neðan mitti og þrjár tímabundna lömun eða skerta hreyfigetu í útlim.
Tvær tilkynningar varða Guillain-Barré heilkenni og í tilkynningunni segir að ein varði lömun og blóðtappa.
Í svarinu segir að í flestum tilfellum sé um tímabundin einkenni að ræða sem eru þegar liðin hjá þegar tilkynnt er um mögulegu aukaverkunina. Í öðrum tilfellum þarf að fylgja tilkynningunum eftir en stofnunin vill ekki upplýsa um einstaka mál.
Ekki er vitað hvort um orsakasamband sé að ræða milli bólusetningarinnar og tilkynntra tilvika. Það sé rannsakað ásamt öðrum tilkynningum í samevrópskum lyfjagátargagnagrunni í samstarfi við aðrar stofnanir á EES-svæðinu.