„Þetta var náttúrulega algjört samstarfsverkefni eins og allt annað hjá Landsbjörgu. Það komu sveitir allt frá Höfuðborgarsvæðinu, Norðfirði, Djúpavogi og Kirkjubæjarklaustri. Þetta er ein stærsta björgun sem hefur verið gerð á Vatnajökli, að ná að bjarga þarna 14 manns, “ segir Ingólfur Guðni Einarsson björgunarsveitarmaður og aðgerðastjóri hjá Landsbjörgu.

Ingólfur fór í gegnum björgun hópsins í samtali við Fréttablaðið en síðustu bílar voru að renna í hlað á Höfn í Hornafirði nú síðdegis.

Búið er að setja þar upp fjöldahjálparstöð þar sem hlúið er að fólkinu sem velkst hefur á jökli í meira en sólarhring. Enginn úr hópnum er slasaður og eflaust allir fegnir því að komast aftur til byggða.

Rauði Krossin er búinn að setja upp fjöldahjálparstöð á Höfn í Hornafyrði
Mynd/aðsend

Með bilað GPS tæki í engu skyggni

„Þau eru upp á öskju Öræfajökuls þegar GPS tækið bilar,“ segir Ingólfur Guðni en það var í kringum fjögur leitið í gær sem kallið berst frá hópnum til Björgunarsveita.

„Það er svo í samráði við okkur að hópurinn heldur kyrru fyrir þar. Því ef þeir fara fram af öskjunni, þá getum við ekki sótt þau því það er sprungusvæði og þá geta þeir líka lent í meiri hremmingum. Þeir lenda í engu skyggni og missa út GPS tækin og þá ertu bara stopp, því landslagið rennur allt saman í eitt.“

Fjórar sleðar lögðu strax af stað til að ná til hópsins.

„Það er samt fljótlega sem við áttum okkur á að hér þurfi meiri aðgerðir þar sem þetta eru orðnir fjórtan manns sem eru fastir á einu hættulegasta fjalli Íslands,“ segir Ingólfur sem lýsir aðstæðum sem virkilega krefjandi. ,,Þarna voru 16-18 metrar á sekúndu, ýmist með snjókomu eða ofankomu og tveggja til þriggja stiga frost.“

Búnir voru til skjólveggir svo hægt væri að hlúa að ferðafólkinu.
Mynd/aðsend

Voru snöggir að ná til hópsins og hlúa að þeim

Sleðarnir fjórir sem fyrstir lögðu af stað voru snöggir að ná til fólksins að sögn Ingólfs.

„Þeir gefa þeim að borða, hlúa að þeim, koma þeim í neyðarskýli og stappa í þau stálinu. Þangað til átta sleðar bætast við. Þá var hægt að fara með hópinn upp á Snæbreið sem er í kringum 1900 metra hæð.“

Ingólfur segir að jeppar björgunarsveitarinnar hafi ekki komist lengra en Hermannaskarði.

„Það er það lengsta sem jeppar geta farið í þessu veðurfari. Það var tekin sú ákvörðun að þar sem fólk var í skjóli, búið að búa til snjóveggi og annað að hægt var að bíða þangað til jepparnir voru komnir og þá hægt að bruna með fólkið á móti jeppunum.“

Viðbúnaður var mikill á Vatnajökli.
Mynd/aðsend

Komnir að þolmörkum þess sem hægt er að gera

Allar aðgerðir björgunarsveitamanna gengu vel að sögn Ingólfs en björgunin hafi verið gífurlega krefjandi.

„Það fór aðeins um okkur að fara úr öskjunni við Hvannadalshnjúk og upp á Snæbreið. Því þar höfum við ekki stóran blett til að fara upp. Því þar eru sprungur á báða bóga og þar fara menn ekki í svona skyggni nema vel tækjum búnir og kunnugir staðarháttum."

Ingólfur segir það alveg sama hvenær árs er farið. "Þarna eru alltaf opnar sprungur sem maður vill ekki lenda ofan í. Auðvitað var ekki tekin nein áhætta en þarna erum við farnir að nálgast þolmörk þess sem hægt er að gera.“ segir Ingófur Guðni.