Icelandair hefur ákveðið að taka eina Boeing 737 MAX vél í flota félagsins úr rekstri en um er að ræða varúðarráðstöfun meðan skoðun fer fram á mögulegu tæknilegu atriði í rafkerfi vélarinnar en um er að ræða varúðarráðstöfun.
„Eins og fram hefur komið tilkynnti Boeing í síðustu viku um mögulegt tæknilegt atriði sem tengist rafkerfi í tilteknum Boeing 737 MAX vélum, sem í kjölfarið voru teknar tímabundið úr rekstri hjá nokkrum flugfélögum á meðan lausn væri fundin á málinu,“ segir í tilkynningu Icelandair.
Upprunalega kom fram að umrætt atriði ætti ekki við um MAX vélar Icelandair en í kjölfar nánari greiningar hjá Boeing kom í ljós að sambærilegt mál hafi áhrif á eina vél. Úrbætur verða gerðar samkvæmt tilmælum Boeing og bandarískra flugmálayfirvalda.
„Rétt er að taka fram að málið tengist ekki hinu svokallaða MCAS kerfi vélarinnar og er því ekki tengt kyrrsetningu vélanna sem hefur verið aflétt,“ segir enn fremur í tilkynningu Icelandair.