Þorsteinn Pálsson, pistlahöfundur Fréttablaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins segir í blaði dagsins að kyrrstöðupólitík ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á síðasta kjörtímabili í orku- og virkjanamálum, og heljartök VG á þeim málaflokki, skilji þjóðina eftir með þrjá meginkosti í loftslagsmálum og boðuðum orkuskiptum fyrir árið 2040.
Í fyrsta lagi að fara strax á þessu ári af stað með virkjanir og auka orkuframleiðsluna um fimmtíu prósent á næstu tveimur áratugum, en það þýði að gefa verði eftir ítrustu kröfur í landvernd.
Í öðru lagi sé hægt að halda ítrustu kröfum um landvernd og gefa eftir í loftslagsmálum.
Þriðji kosturinn sé svo sá að halda ítrustu markmiðum á báðum sviðum en gefa eftir í lífskjörum, en þá þyrfti að skammta flugferðir Íslendinga til útlanda og almennt draga úr neyslu. Þá yrði heldur ekki þörf fyrir jafn há laun og nú eru við lýði.
Þorsteinn segir neitunarvald VG í þessum málaflokki á síðustu árum hafa komið landsmönnum í þessa stöðu, en stundaglasið sé tómt, velja þurfi strax á milli ofangreindra kosta.