Meirihluti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar samþykkti á síðasta bæjarstjórnarfundi að gera eina klukkustund á dag gjaldfrjálsa í leikskólum bæjarins.

Þetta kemur fram í síðustu fundargerð bæjarins.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar, segir einhug hafa verið í málefnavinnu bæjarins sem kristallist svo í málefnasamningnum um að styðja mjög vel við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu.

„Það sem við höfum talað um er að stefna að sex klukkustundum gjaldfrjálsum,“ segir Jóhanna Ýr og bætir við að ein gjaldfrjáls klukkustund á dag muni kosta sveitarfélagið um 800 þúsund krónur á mánuði.

Að sögn Jóhönnu Ýrar mun breytingin taka í gildi 1. september næstkomandi og stefnir meirihlutinn á sex tíma gjaldfrjálsa leikskóladvöl í skrefum á kjörtímabilinu.

Bæjarstjórnin mun í kjölfarið fara yfir fjárhagsáætlunargerð fyrir komandi ár, fara yfir stöðuna ásamt því að fara í úttekt á sveitarfélaginu hvað varðar stefnumótun og rekstur þess.

Jóhanna Ýr segir komandi tíma afskaplega spennandi og að markmiðið sé að þjónusta íbúa sem allra best.