Einstaklingar sem hafa einungis fengið eina Janssen sprautu geta ekki lengur fengið bólusetningavottorð eftir 1. febrúar næstkomandi.

Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á útgáfu bólusetningavottorða í Evrópu í samræmi við ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins:

  • Covid-19 bólusetningaskírteini fá 9 mánaða gildistíma frá grunnbólusetningu (fyrir 16 ára og eldri)
  • Ef lengra er liðið en 9 mánuðir frá grunnbólusetningu mun vottorð teljast ógilt á landamærum alveg sama hvað stendur á því
  • Örvunarskammtur fellir niður þennan skilgreinda gildistíma á bólusetningaskírteinum samkvæmt Evrópusamstarfinu
  • Við örvunarskammt framlengist gildistími íslenskra vottorða um 9 mánuði (í stað 12 nú)
  • Útgáfa bólusetningavottorða á grundvelli stakrar bólusetningar með Janssen hættir á Íslandi

Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu á vef Embættis landlæknis. Nýtt vottorð verður aðgengilegt í Heilsuveru 1. febrúar 2022.

Sumar Evrópuþjóðir nota bólusetningaskírteini til að fá aðgang að viðburðum, en þá geta tímamörk á gildistíma eftir grunnbólusetningu verið mun þrengri, allt niður í tvo mánuði. Landlæknir mælir með að ferðamenn kynni sér slíkar reglur á áfangastöðum erlendis.

Samkvæmt þessum breytingum geta Janssen-þegar sem hafa ekki fengið örvunarbóluskammt ekki ferðast til annarra Evrópulanda frá og með 1. febrúar næstkomandi.

„Við þessar breytingar verður útgáfu bólusetningavottorða á grundvelli stakrar bólusetningar með Janssen hætt á Íslandi, þar sem ein Janssen bólusetning er ófullnægjandi til að draga verulega úr smithættu eða alvarlegum veikindum vegna delta eða omikron afbrigða. Bóluefni Janssen verður áfram notað með takmörkuðum hætti: fyrir einstaklinga sem ekki þola mRNA bóluefni, á meðan aðrir kostir eru ekki í boði,“ segir í tilkynningu landlæknis.