Lægð sem dýpkar ört og nálgast land hratt úr suðvestri og skellur á landinu á morgun. Vindur verður minni á landinu heldur verið hefur í dag. Þó verður hvasst (yfir 20 m/s) á suðausturlandi samfara úrkomu. Það sem þykir helst fréttnæmt við lægðina er dýpt hennar og gæti henni hlotnast sá heiður að verða sú dýpsta í sögunni. Þetta kemur fram á veðurvefnum Blika.is.

Sveinn Gauti Einarsson umhverfisverkfræðingur fjallar um lægðina á Blika.is og segir að tvær lægðir keppi um þann vafasama heiður að vera dýpstu lægðir sögunnar á heimsvísu. Báðar þessar lægðir náðu sinni mestu dýpt í grennd við Ísland. Þrátt fyrir mikla dýpt ollu þessar lægðir ekki teljandi vandræðum. Telur Sveinn nánast öruggt að lægðin verði sú dýpsta á þessari öld.

Sveinn Gauti segir ekki ástæðu til að óttast lægðina hér á landi en hún muni valda vandræðum víða í Evrópu. Gular eða appelsínugular viðvaranir hafa verið gefnar út í Austurríki, Sviss, Spáni, Frakklandi, Írlandi, Íslandi, Noregi, Portúgal, Svíþjóð, Litháen, Slóveníu og Bretlandi.

Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að ekki taki því að setja ruslatunnur á sinn stað fyrr en lægðin á morgun er gengin yfir. Spáð er austanátt líkt og í gær með vindhraða upp á 28 m/sek. Bæta fer í vind upp úr hádegi og stendur versta veðrið yfir fram á miðjan dag. Í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar segir:

„Þrátt fyrir að ofsinn í veðrinu verði ekki eins og í gær er ástæða fyrir fólk að nota lognið á undan storminum til þess að festa það sem losnaði í gær og tryggja það fyrir morgundaginn. Eins og áður ef aðstoðar er þörf er fólki bent á að hringja í 112.“