Tæp tíu prósent þeirra kvenna sem leituðu til Landspítalans á árunum 2005-2014 með áverka vegna heimilisofbeldis höfðu verið teknar kyrkingartaki af núverandi eða fyrrverandi maka sínum eða barnsföður. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Drífu Jónasdóttur, doktorsnema við læknadeild Háskóla Íslands.

Niðurstöður rannsóknarinnar, sem var unnin úr gögnum frá Landspítala, sýna að 1.454 konur leituðu til spítalans á tímabilinu vegna ofbeldis sem þær höfðu orðir fyrir af hálfu maka. Tæp 93 prósent þeirra leituðu á bráðamóttöku og rúm þrjú prósent þeirra voru lagðar inn.

„Þetta er mikill fjöldi kvenna en þetta eru samt bara konurnar sem segja beint frá því að hafa orðið fyrir ofbeldi,“ segir Drífa.

Í rannsókninni er sjónum beint að líkamlegum áverkum og segir Drífa stærstan hluta áverkanna vera yfirborðsáverka. „Konurnar koma með áverka á spítalann meðal annars vegna þess að þær hafa verið kýldar, slegnar, sparkað hefur verið í þær, þeim hrint, þær teknar kyrkingartaki og dregnar um á hárinu. Tegundir áverka eru til dæmis yfirborðsáverkar, tognanir, sár og beinbrot.“

Áverkana segir Drífa flesta vera á höfði, hálsi og andliti kvennanna og á handleggjum. „Svo eru þetta oft dreifðir áverkar þannig að hver kona er með áverka á víð og dreif um líkamann. Þetta eru ekki staðbundnir áverkar,“ segir Drífa.

„Á bak við þær konur sem voru til skoðunar í þessari rannsókn voru karlar,“ segir Drífa. „Þrátt fyrir að fólk af öllum kynjum sé beitt ofbeldi og beiti ofbeldi þá sneri þessi rannsókn að konum sem beittar voru ofbeldi af karlkyns mökum sínum, þannig að þeir bera ábyrgð á þessum áverkum,“ bætir hún við.

„Það er alls konar fólks sem beitir ofbeldi og hefur alls konar útskýringar á sinni hegðun en það þarf að fá aðstoð við að hætta að beita ofbeldi,“ segir Drífa.

Andrés Ragnarsson sálfræðingur rekur verkefnið Heimilisfriður, þar sem fólki sem beitir ofbeldi er veitt meðferð. Hann segir að til Heimilisfriðar leiti helst fólk sem beiti maka sinn ofbeldi, um 75 prósent skjólstæðinga eru karlar og 25 prósent konur. Öll kyn séu velkomin og að til séu úrræði fyrir alla sem vilji hætta að beita hvers konar ofbeldi.

„Okkar hlutverk er það að stoppa alla ofbeldishegðun,“ segir Andrés. „Hingað kemur gríðarlega mikið af fólki og síðasta mánuðinn hefur orðið sprenging í komum,“ bætir hann við.

Hann segir mikilvægt að þeir sem leiti til Heimilisfriðar komi þangað af fúsum og frjálsum vilja og að rannsóknir sýni að meðferðin sem beitt er minnki ofbeldishegðun. „Við notum sálfræðilegar aðferðir til þess að breyta þessari hegðun. Í mörgum tilvikum er það þannig að fólk sem beitir ofbeldi kann ekki annað eða að ofbeldi sé viðbragð sem það hefur lært,“ segir Andrés.

„Við sýnum fólkinu sem til okkar kemur virðingu þrátt fyrir að við tökum algjöra afstöðu gegn ofbeldi,“ segir hann og bætir við allir geti leitaði til þeirra. „Hér er ekki löng bið eftir viðtölum og ekki dýrt að leita sér hjálpar. Félagsmálaráðuneytið niðurgreiðir starfsemina svo viðtalið kostar aðeins 3.000 krónur. Ég hvet alla sem beita ofbeldi til þess að leita sér hjálpar.“