„Það er oftast talað um að það séu um það bil fimm­tán prósent af þungunum sem enda með fóstur­missi, þá erum við að tala um þunganir sem stað­festar eru með þungunar­prófi. Sem sagt næstum því ein af hverjum sex þungunum,“ segir Hulda Hjartar­dóttir, yfir­læknir á kvenna­deild Land­spítalans.

„Svo fer þetta að­eins eftir aldri, þannig að hjá konum sem eru kannski orðnar fer­tugar er þetta al­gengara. Þá er þetta ein af hverjum þremur þungunum,“ segir Hulda.

Hún segir að á­stæður fóstur­láts geti verið af ýmsum toga en litninga­galli hjá fóstri sé al­gengasta á­stæðan. „Það hafa verið gerðar ýmsar rann­sóknir á fóstur­látum sem að benda til þess að stærsti hlutinn sé vegna ein­hvers konar litninga­galla hjá fóstrinu sem er þá það al­var­legs eðlis að það myndi aldrei geta orðið eðli­legt fóstur.“

Hulda segir að þó að rann­sóknir hafi verið gerðar á á­stæðum fóstur­láts sé ekki vaninn að greina hvert til­felli fyrir sig. „Önnur al­geng á­stæða er ein­hvers konar byggingar­galli hjá fóstrinu sem gerir það að verkum að það nær ekki að lifa lengur en fyrstu vikurnar. Svo er það því miður þannig að í hverju ein­stöku til­viki veit maður ekkert hver skýringin er,“ segir Hulda.

Hulda segir að flest fóstur­lát verði fyrir tíundu viku og að með aukinni tækni sé auð­veldara að fylgjast með fóstrum í móður­kviði. „Ef kona er skoðuð með lifandi fóstur við tíu vikur þá eru 99 prósent líkur á því að það muni ganga á­fram,“ segir Hulda.

„Miðað er við tólf vikur en á­stæðan er sú að það fer ekki að blæða strax við fóstur­lát og í raun verða engin merki þess í tvær til þrjár vikur eftir að það gerist. Nú getum við þó sagt með betri vissu fyrr á með­göngu hvort allt sé í lagi,“ bætir hún við.
Hulda segir að þrátt fyrir að við­miðið sé tólf vikur sé ekkert því til fyrir­stöðu að konur greini frá því fyrr að þær séu þungaðar.

„Ef þú missir fóstrið þá verður þú jú sorg­mædd en fólkið í kringum þig skilur af hverju og þú þarft ekki að vera í ein­hverjum felu­leik með það,“ segir Hulda og bætir við að mikil hjálp geti falist í því að segja frá.

„Í mörgum til­fellum komast konur að því að það eru svo ótal margir í kringum þær sem hafa upp­lifað það sama og það getur oft verið heil­mikill styrkur fólginn í því að fá hug­hreystingu og upp­örvun frá fólkinu í kringum þig,“ segir Hulda.