Eim­skip segir ein­elti aldrei liðið á vinnu­stað og að þau hafi lengi verið með skýra stefnu og á­ætlun gegn ein­elti sem fylgt sé í hví­vetna. Frá þessu er greint í svari frá markaðs- og sam­skipta­stjóra fyrir­tækisins, Eddu Rut Björns­dóttir, við fyrir­spurn Frétta­blaðsins til þeirra í kjöl­far fréttar sem birt var í morgun um ein­elti sem Arn­grímur Jóns­son hefur verið beittur hjá Eim­skip.

Sam­kvæmt svari verður brugðist við ein­eltinu og hefur Arngrímur verið beðinn afsökunar.

„Brugðist verður við því at­viki sem upp hefur komið núna af festu og á­byrgð. Okkur þykir málið mjög leitt og hefur við­komandi aðili verið beðinn af­sökunar fyrir hönd fé­lagsins,“ segir í svari Eddu Rutar.

Létu útbúa bikar

Dóttir Arn­gríms, Ingi­björg, greindi frá ein­eltinu í Face­book-færslu þar sem, meðal annars, kom fram að sam­starfs­menn Arn­gríms hafi látið út­búa bikar sem á voru hamingju­óskir um að hafa mætt í vinnuna 4 daga í viku en Arn­grímur hefur undan­farið glímt við tals­verð veikindi sem hafa hamlað honum frá því að mæta til vinnu.

Edda Rut segir í svari að stefna og á­ætlun Eim­skip gegn ein­elti hafi síðast verið upp­færð árið 2018 og þá hafi farið fram fræðsla fyrir alla starfs­menn og stjórn­endur. Þá sé einnig sér­stakur kafli um ein­elti og sam­skipti í starfs­manna­hand­bók sem sé að­gengi­leg öllum starfs­mönnum og nýjum starfs­mönnum sér­stak­lega kynnt.

„Leiðar­ljós okkar í sam­skiptum er að koma fram af kurteisi og virðingu við hvort annað og við tökum því al­var­lega ef því er ekki fylgt,“ segir í svari.