„Al­þingis­menn eiga að vita betur en að gera upp á milli stjórnar­skrár­varins réttar fólks eftir því hvort þeir hafi sam­úð með mál­staðnum eða ekki,“ sagði Sig­ríður María Egils­dóttir, vara­þing­maður Við­reisnar, í um­ræðum um störf þingsins á Al­þingi í dag. 

Hún segir um­ræðuna um kröfur flótta­fólks, sem mót­mælt hefur á Austur­velli undan­farna daga vegna stöðu þeirra hér á landi, vera á villi­götum á meðal þing­manna. 

„Hér fyrir utan voru haldin frið­sam­leg mót­mæli í nokkra daga, en í stað þess að þing­menn ræddu kröfu­gerðina sjálfa á efnis­legum nótum var varpað fram undar­legum spurningum um hvort mót­mælendur mættu nota kirkju­klósett eða ekki,“ segir Sig­ríður María og vísar þar væntan­lega til ræðu Ólafs Ís­leifs­sonar, þing­manns Mið­flokksins, sem sagði að Dóm­kirkjan hafi sinnt hlut­verki „al­­mennings­­náð­húss“ undan­farna daga. 

Sjá einnig: Umræðudrullumall á Austurvelli

Sig­ríður segir réttinn til að mót­mæla ekki standa og falla með því hvort fólki líki mál­staðurinn eða ekki. „Rétturinn til að mót­mæla stendur og fellur með lýð­ræðinu sjálfu,“ segir hún og lýsir jafn­framt yfir á­hyggjum vegna upp­gangs popúl­isma beggja vegna At­lants­hafsins. 

Þingið standi frammi fyrir ýmsum á­skorunum sem ljóst er að takast verður á við. Má þar nefna mál­efni ör­yrkja og aldraðra, en einnig flótta­fólks. 

„Við getum rætt öll þessi mál og við eigum að gera það. En við eigum ekki að stilla fólki upp á móti hvert öðru eins og vaninn hefur orðið, því að í því hugar­fari felst sundrungin. Ef sagan kennir okkur eitt­hvað er það að á henni græðir enginn,“ sagði hún að lokum.