Bankareikningar stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís hafa verið frystir í Rússlandi og íbúð hans haldlögð. Navalní var útskrifaður af sjúkrahúsi í Berlín eftir að eitrað var fyrir honum í borginni Tomsk í Rússlandi þann 20. ágúst en um langt skeið var hann í dái. Segist Navalní ætla að snúa aftur til Rússlands til að halda pólitískri baráttu sinni áfram.

Samkvæmt Kíru Jarmish, talskonu Navalnís, voru eignir hans haldlagðar þann 27. ágúst. Þar á meðal íbúð hans í Moskvu og getur hann nú hvorki selt hana né leigt. Ástæðan eru málaferli sem Navalní stendur í við fyrirtæki í eigu Jevgenís Prígosíns, sem framleiðir skólamáltíðir fyrir börn.

Auðkýfingurinn Prígosín er náinn bandamaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og ber viðurnefnið „kokkur Pútíns“. Eftir að matareitrun kom upp í rússneskum skólum árið 2018 bjó Navalní til heimildarmyndband þar sem gæði skólamáltíðanna voru dregin í efa. Prígosín fór í mál og var Navalní dæmdur til að greiða 88 milljónir rúblna, eða rúmlega 150 milljónir króna, í skaðabætur og eyða myndbandinu.

Voru eignir Navalnís haldlagðar til þess að tryggja bæturnar í ljósi þess að hann hafði verið fluttur til Þýskalands. „Ég mun ekki elta herra Navalní yfir móðuna miklu,“ sagði Prígosín á miðvikudag