Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, segir meðal annars frá upphafi sambands hennar og eiginmannsins í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins.
Vanda hefur ákveðið að gefa aftur kost á sér til formennsku á ársþingi sambandsins í næsta mánuði.
Vanda lærði frítímafræði í Gautaborg þar sem hún spilaði einnig fótbolta. „Ég kom heim árið 1989 og fór að vinna í Árseli þar sem Kobbi er fyrir,“ segir Vanda og á þá við eiginmann sinn Jakob Frímann Þorsteinsson.
„Hann var með permanent og spangir þegar við hittumst auk þess sem hann var fjórum árum yngri en ég,“ segir Vanda hlæjandi en það tók hann fimm ár að fá Vöndu til að skipta um skoðun og gefa sér séns.
Allt pabba ykkar að þakka
„Ég hef oft sagt börnum mínum að það sé algjörlega pabba þeirra að þakka að við séum öll þar sem við erum í dag. Hann hefur sagt það sjálfur að hann fann að ég ætti að verða konan hans og eltist við mig árum saman. Mér fannst erfitt að allir vinir okkar vissu að hann væri hrifinn af mér og var því ekkert alltaf voða næs - átti líka annan kærasta á tímabili. Hann bara beið og beið og aðra eins þrautseigju hef ég varla heyrt um, sem betur fer,“ segir Vanda fegin því að hafa séð ljósið.
Setti loks niður varnirnar
„Þegar ég svo hætti að ofhugsa þetta og hugsa um hvað öðrum fannst, varð ég ástfangin af honum. Ég setti niður varnirnar og leyfði mér að sjá betur hversu frábærlega frábær hann er,“ rifjar hún upp en síðan eru liðnir tæpir þrír áratugir og þau hjónin hafa ekki aðeins verið samstíga í einkalífinu heldur starfað saman stóran hluta ferilsins.
„Fyrst í félagsmiðstöðinni og svo störfuðum við saman í yfir tíu ár við Háskóla Íslands við námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði.“