Joachim Sauer, eiginmaður Angelu Merkel kanslara, hefur sakað þá Þjóðverja sem ekki hafa þegið bólusetningu við Covid‌-19 um leti. 32 prósent Þjóðverja eru óbólusett sem er hærra hlutfall en í mörgum nágrannaríkjum.

„Það er ótrúlegt að þriðjungur landsmanna fylgi ekki vísindalegum niðurstöðum. Þetta er að hluta til út af leti og andvaraleysi Þjóðverja,“ sagði Sauer í viðtali við ítalska dagblaðið La Republica en ummælin vöktu athygli eftir að þau voru birt í þýska blaðinu Die Welt.

Sauer er efnafræðingur líkt og Merkel og er prófessor emeritus við Humboldt-háskólann í Berlín. Sauer og Merkel hafa verið gift síðan árið 1998 en Sauer hefur að mestu reynt að halda sig utan sviðsljóssins.

Í viðtalinu sagði Sauer hið lága hlutfall sérstaklega grátlegt í ljósi þess hversu hratt vísindamenn hefðu náð að búa til bóluefni og dreifa því. Hann sagði þó að ekki væri hægt að skýra hlutfallið að öllu leyti með leti. Hluti fólks væri andvígur því að fá bólusetningu.