Tæplega átta hundruð eiginkonur og börn vígamanna Íslamska ríksins (e. ISIS) hafa sloppið úr Ain Issa fangabúðunum fyrir utan Al-Raqqah, borg í norðausturhluta Sýrlands, eftir að Tyrkir réðust inn á svæðið og gerðu þar árás. Þetta staðfestir Abdulkader Mwahed, annar forseti sýrlenskra mannréttindasamtaka.

Tyrkland hefur lýst því yfir að þeir vilji koma Kúrdum í burt til að skapa frið og mynda 30 kílómetra öryggissvæði og flytja þangað þrjár milljónir sýrlenskra flóttamanna, sem nú dvelja í Tyrklandi.

Kúrdar halda því fram að Tyrkir beini sprengjum sínum að fangelsum sem hýsa ISIS-liða til þess að skapa glundroða á svæðinu. Kúrdar segja að fangavarsla vígamanna íslamska ríkisins sé ekki lengur í forgangi, heldur beini þeir öllum sínum kröftum að því að verja sig gegn innrás Tyrkja.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, heldur því hins vegar fram að Kúrdar dreifi falsfréttum, um að hryðjuverkamenn og fjölskyldur þeirra hafi sloppið úr fangabúðum. Þetta segir hann í tyrkneska ríkisútvarpinu, Anadolu.