„Fréttirnar eru ein­fald­lega þær að það eru engar endan­legar fréttir enn sem komið er,“ segir Drífa Björk Linnet, en hún segir frá því á Insta­gram reikningi sínum hvernig and­lát eigin­manns hennar, Haraldar Loga Hrafn­kels­sonar, bar að, en hann lést í eldsvoða á Tenerife í febrúar síðastliðnum.

Drífa segir að búnar hafi verið til „allskonar "smekklegar" útgáfur af málinu“ á kostnað syrgjandi aðstandenda en hún segir nú í fyrsta sinn frá því sem á daga fjölskyldunnar hefur drifið frá því hún vaknaði við að kominn var upp eldur í húsi þeirra á Tenerife þann 6. febrúar síðastliðinn.

„Eftir að Sara Jasmín elsta dóttir mín vaknar og hleypur í panikki út og nánast inn í eldinn – kallar hún á mig að það sé kviknað í,“ segir Drífa.

Drífa hringir því í slökkvi­lið og lög­reglu sem ná að ráða niður­lögum eldsins. „Þegar það er búið, koma þeir til mín og segjast hafa fundið manninn minn í einni af tveimur bif­reiðum í bíl­skúrnum og hafi hann strax verið úr­skurðaður látinn,“ segir hún.

Því næst fer hún upp á lög­reglu­stöð þar sem skýrsla er tekin af fjöl­skyldunni og þaðan fer hún að leita að hótel­her­bergi. Enda var húsið ó­í­búðar­hæft og bílarnir ó­nýtir.

„Á meðan ég er að reyna að finna hótel, vissu börnin ekkert og spurðu í sí­fellu hvort ég ætlaði ekki að hringja í pabba þeirra og segja honum að það hafi kviknað í. Eftir að ég er búin að inn­rita mig á hótelið segi ég börnunum fréttirnar um að pabbi þeirra sé dáinn,“ segir Drífa.

Auk þess að taka skýrslu af fjöl­skyldunni, rann­sakaði lög­regla húsið og bíla fjöl­skyldunnar í leit að or­sök brunans. Bráða­birgða­niður­staða lá fyrir nokkrum dögum síðar og var skýrsla send til dómara en að sögn Drífu annað hvort stimplar hann skýrsluna og málinu er lokið eða hann hefur at­huga­semdir við hana og óskar eftir frekari rann­sókn. Drífa segir skýrsluna hafa verið á borði dómara í nokkrar vikur en lætur þess ekki getið hvort niður­staða hans liggi fyrir. Hún segir þó að strax tveimur vikum eftir and­látið hafi hún fengið stað­fest að það hafi hvorki verið sjálfs­víg né borið að með sak­næmum hætti. Nú sé verið að rann­saka upp­tök eldsins.

„Hvaðan kom eldurinn ef Halli kveikti ekki í sjálfur, né ein­hver annar? Getur það verið vindill eða of­hitnaði bíllinn? Þeir eru ein­fald­lega ekki búnir enn að átta sig á því og því er málið enn til rann­sóknar,“ segir Drífa. Öryggis­mynda­vélar hafi verið skoðaðar, bæði vélar úr húsinu þeirra og í götunni. Af þeim sjáist að Halli hafi komið einn heim seint um nóttina, lykla­laus „og vildi senni­lega ekki vekja okkur og hann sest inn í bíl, ræsir vélina, kemur sér fyrir í sætinu og leggur sig.“

Tuttugu mínútum síðar fari hann aftur að húsinu, en snúi svo aftur að bílnum og sofni þar. Tveimur klukku­stundum síðar hafi komið reykur frá bílnum og síðan sprenging. „Þá vöknum við öll og mar­tröðin hefst sem við erum enn í,“ segir Drífa.

Næstu þremur mánuðum eyddi fjöl­skyldan á hóteli, á­samt móður Drífu. Drífa segist hafa mikið reynt að fá upp­lýsingar hjá spænskum yfir­völdum, bæði um rann­sóknina og hve­nær hún gæti jarðað mann sinn.

Það var síðan eftir þessa þrjá mánuði sem Drífa fékk nóg og flutti til Ís­lands. „Að þessum 3 mánuðum loknum var ég komin með nokkurn vegin mynd á hvað hefði gerst þessa nótt en þó ekki komin með full­nægjandi svör hvort ég mætti taka hann með mér og því gat ég ekki gert börnunum það lengur að búa við þessar að­stæður og á­kveð að bóka okkur til Ís­lands.“

Drífa segist hafa verið í sam­bandi við fjöldann allan af lög­fræðingum. Hún segir alla vera að gera sitt besta og að allir séu að reyna að flýta málinu. „Svörin eru bara „þetta tekur tíma“ ég hef ekki geta sætt mig við það en núna er svo komið að ég verð geð­heilsu minnar og barnanna vegna að sætta mig við það svar og bíða bara,“ segir hún.

Drífa hefur enn ekki fengið jarð­neskar leifar eigin­mannsins. „Svörin eru bara „þetta tekur tíma“ ég hef ekki geta sætt mig við það en núna er svo komið að ég verð geð­heilsu minnar og barnanna vegna að sætta mig við það svar og bíða bara,“ segir hún.

Minningar­at­höfn um Halla verður haldin 23. ágúst næst­komandi en þá hefði hann orðið fimm­tugur.