Sara Netanyahu, eiginkona ísraelska forsætisráðherrans Benjamin Netanyahu, hefur játað að hafa misnotað almannafé og þarf að greiða sekt sem samsvarar tæplega 1,9 milljón íslenskra króna.

Sara var sökuð um að eyða tæplega 12,5 milljónum króna í veitingaþjónustu á sama tíma og hún hélt því ranglega fram að það væru engir kokkar fáanlegir á heimili forsætisráðherrans.

Hún var kærð fyrir fjársvik og brot á almannatrausti á síðasta ári.

Samkvæmt samkomulagi sem hún gerði við saksóknara þarf hún að endurgreiða ríkinu um 1,5 milljón króna og borga um 350 þúsund króna sekt.

Saksóknarinn sagði að töluverðar málamiðlanir hefðu verið gerðar til að komast að þessu samkomulagi. Hann sagði enn fremur að þó að það sé ekki fullt samræmi milli sektargreiðslunnar og fésins sem hún misnotaði sé það ekki nauðsynlegt, samkvæmt lögum.

Í fyrra héldu lögmenn Söru því fram að hún hefði ekki vitað af veitingaþjónustunni, sem hefði verið pöntuð af þeim sem sá um heimili forsætisráðherrann til að fæða erlenda ráðamenn sem voru gestir.

Lögmaður hennar sagði að málið hefði ekkert með Söru að gera og væri beint gegn eiginmanni hennar. Hann sagði að hún væri fórnarlamb í málinu og hefði verið látin ganga í gegnum helvíti. Eiginmaður hennar hefur kallað hana sanna hetju.

Samkvæmt Washington Post eru þó bæði forsætisráðherrann og eiginkona hans þekkt fyrir ríkulegan lífsstíl á kostnað skattborgara. Sara hefur verið sökuð um að nota almannafé í eigin þágu og bruðl og hefur auk þess verið dæmd fyrir slæma meðferð á þjónustufólki sínu og á yfir höfði sér aðra lögsókn vegna þess.