Kellie Chauvin, eiginkona bandaríska lögreglumannsins Derek Chauvin, hefur gert kröfu um að fá að breyta eftirnafni sínu.

Hún óskaði eftir skilnaði síðasta fimmtudag, þremur dögum eftir að myndband náðist af eiginmanninum krjúpa á hálsi George Floyd í Minn­ea­pol­is þar til hann missti meðvitund.

Derek Chauvin var ákærður fyrir morðið á Floyd á föstudag. Hefur málið verið uppspretta óeirða og mikillar mótmælabylgju um gjörvöll Bandaríkin.

Í skilnaðarpappírunum segir Kellie að engin leið hafi verið til að bjarga hjónabandinu en þau höfðu verið gift í tæp tíu ár, er segir í frétt CNN.

Ekki kemur fram í skjölunum hvaða nafn hún hyggst taka upp að skilnaðarferlinu loknu en hún hefur áður gengið undir nöfnunum Kellie Thao og Kellie Xiong.

Kellie gerir fullt tilkall til fasteigna þeirra í Oakdale í Minnesóta og Windermere í Flórída og óskar eftir eignarhlut í sameiginlegum bifreiðum og innistæðum bankareikninga.

Jafnframt kemur fram í skjölunum að hún geri ekki kröfu um framfærslufé frá eiginmanni sínum í ljósi þess að hún hafi tekjur sem fasteignasali.