Forseti Alþingis segir í tilkynningu á vef Alþingis að það sé hægt að líta á samþykki Skúla Eggerts Þórðarsonar, ríkisendurskoðanda, á flutningi hans í embætti ráðuneytisstjóra sem ósk um starfslok. Þetta segir forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í tilkynningu á vef Alþingis.
Umboðsmaður Alþingis óskaði svara frá tveimur ráðuneytum í gær vegna skipunar tveggja ráðuneytisstjóra. Forseti Alþingis fer í tilkynningu sinni yfir aðkomu hans að skipun annars þeirra, það er Skúla Eggerts.
Forseti Alþingis segir að honum hafi borist bréf frá ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, Lilju Dögg Alfreðsdóttur, dagsett 26. janúar síðastliðinn, með ósk um að Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi yrði fluttur í embætti ráðuneytisstjóra í menningar- og viðskiptaráðuneyti frá 1. febrúar og var vísað til þess í bréfinu að það væri gert með vísan til 36. greinar laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, (starfsmannalaga).
Í tilkynningu forseta Alþingis segir að í bréfi, sem var dagsett 25. janúar, hafi ríkisendurskoðandi, Skúli Eggert, óskað eftir því að heimilaður yrði flutningur hans í embætti ráðuneytisstjóra. Hann hafi svo á 1004. fundi forsætisnefndar, 27. janúar kynnt ósk ráðherra og samþykki Skúla Eggerts og greint frá því að hann ætlaði að verða við ósk ráðherra. Daginn eftir tilkynnti hann svo ráðherra um það.
Í tilkynningunni segir að heimild til þess að flytja ríkisendurskoðanda í annað embætti hafi verið byggð á 2. málslið 2. málsgreinar. 36. greinar. Starfsmannalaga en ákvæði laganna taka, að sögn forseta, til embættis ríkisendurskoðanda, að því marki sem ekki er kveðið á um annað í sérstökum lagaákvæðum sem varða embættið.
„Einstök ákvæði þeirra, þ.m.t. ákvæði 36. gr., eru ekki undanskilin þegar ríkisendurskoðandi á í hlut,“ segir í tilkynningunni og að það eigi að líta á samþykki Skúla Eggerts um flutning í embætti ráðuneytisstjóra í Stjórnarráði Íslands sem ósk um starfslok með sambærilegum hætti og þegar embættismaður biðst lausnar frá embætti sínu.
Þá kemur að lokum fram í tilkynningunni að hvorki lög um ríkisendurskoðanda né þingsköp Alþingis geri ráð fyrir því að önnur mál en lúta að kosningu ríkisendurskoðanda eða frávikningu hans skuli afráðin á þingfundi.
„Í framkvæmd hefur forseti Alþingis eða forsætisnefnd tekið ákvarðanir um önnur atriði er varða málefni ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis,“ segir að lokum.
Tilkynninguna, bréfin frá ráðherra auk tveggja minnisblaða um málið má skoða hér á vef Alþingis.