„Maður átti ekki von á miklum afléttingum svo við fögnum öllu,“ segir Birgitta Líf Björnsdóttir, athafnakona og eigandi Bankastrætis Club, um nýjustu sóttvarnareglur sem kynntar voru á þriðjudag.

„Ég lagði upp með að opna stað með öðruvísi áherslum og breyta menningunni í heilbrigðari átt. Það er frítt inn á staðinn til klukkan tíu og tilboð á barnum sem er gert til þess að fólk mæti fyrr og við lokum líka fyrr en aðrir staðir í miðbænum,“ segir Birgitta.

Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi Bankastræti club.
Fréttablaðið/Eyþór

Þeir eigendur skemmtistaða sem Fréttablaðið ræddi við í gær taka öllum afléttingum sóttvarnareglna fagnandi, en hefðu viljað sjá frekari tilslakanir. Með nýjum reglum lengdist opnunartími þeirra um klukkutíma og fjöldatakmarkanir fóru úr 200 manns í 500.

Jón Mýrdal, athafnamaður og eigandi djassklúbbsins Skuggabaldurs, segir að tilslakanirnar hafi þó verið minni en hann vonaðist eftir. „Ég hefði viljað að opnunartíminn hefði verið lengdur um tvo klukkutíma svo hægt væri að hleypa gestum inn til klukkan eitt eftir miðnætti. Það hefði verið óskastaða fyrir rekstur Skuggabaldurs,“ segir Jón.

Jón Mýrdal, eigandi djassklúbbsins Skuggabaldurs.
Fréttablaðið/Óttar

Fannar Alexander Arason, eigandi Miami bar á Hverfisgötu, segir erfitt að standa í skemmtistaðarekstri þegar upplýsingagjöf til fyrirtækja komi yfirleitt með stuttum fyrirvara og í gegnum fjölmiðla.

„Maður er svolítið orðinn eins og barinn hundur eftir þetta allt saman,“ segir hann og bendir máli sínu til stuðnings á að það gangi ekki að fá að vita samdægurs eða daginn áður hvort það þurfi að kalla fólk til vinnu.

„Við fáum allar okkar fréttir beint frá fjölmiðlum. Það eina sem ég hef fengið frá stjórnvöldum er 100 þúsund króna sekt af því ég hleypti tveimur strákum inn að kaupa sér sígarettur fimm mínútur yfir níu.

„Mér var tjáð að þetta væri lægsta sektin sem ég gæti fengið. Það var ódýrara að borga sektina en að taka málið lengra,“ segir Fannar.

Hann trúir því að fólk þurfi tíma til að breyta þeirri skemmtistaðamenningu sem er við lýði hér á landi. „Fólk breytist ekkert. Það er ekki að mæta fyrr til að hætta fyrr. Fólk mætir og fer svo í heimahús í eftirpartí,“ segir Fannar Alexander.