„Einn fallegasti staður á Íslandi er til sölu.“ Þannig hljóðaði upphaf fasteignaauglýsingar þegar ættarlandið Heiði skammt frá Kirkjubæjarklaustri á Suðurlandi var auglýst til sölu fyrir sex árum. Svæðið sem þekur 315 hektara býr yfir Fjaðrárgljúfri, einni merkustu náttúruperlu landsins.

Loks er fundinn kaupandi. Landeigendur hafa samþykkt tilboð en Magnús Leópoldsson fasteignasali, sem er með umsjá sölunnar á sínum snærum, segir þó málið enn í ferli. Hann sé bundinn trúnaði. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er kaupandinn að jörðinni Íslendingur sem starfar fyrir í ferðaþjónustu. Heimildir blaðsins herma að kaupverð sé milli 300 og 350 milljónir króna.

Ríkið á forkaupsrétt

Þegar Magnús segir málið enn í ferli er hann að líkindum með það í huga að ríkið er með forkaupsrétt hvort sem tekin verður ákvörðun um að nýta þann rétt eða ekki. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gætu afráðið að stíga inn og kaupa landið og gljúfrið fyrir hönd ríkisins. Ríkið hefur takmarkaðan tíma til að bregðast við og taka ákvörðun um að halda eða sleppa.

Fjaðrárgljúfur hefur verið í umsjá Umhverfisstofnunar. Stofnunin lokaði gljúfrinu um tíma sumarið 2019 í verndarskyni þegar umferð ferðamanna flæddi langt utan göngustíga. Sprenging varð í aðsókn eftir að poppstjarnan Justin Bieber baðaði sig í gljúfrinu. Hann tók mynd sem barst eins og eldur í sinu um heiminn.

Heimamenn sem Fréttablaðið ræddi við í síðustu viku á Suðurlandi töldu að einn hvati kaupanna gæti verið sá að tilvonandi eigandi ætlaði sér gjaldtöku. Fram til þessa hafa bílastæði verið gjaldfrjáls og enginn aðgangseyrir innheimtur. Magnús Leópoldsson segir ekkert liggja fyrir sem staðfesti að markmið kaupanna sé að hagnast með gjaldtöku á komum ferðamanna. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar.

Veggir Fjaðrárgljúfurs eru um 100 metrar á hæð. Gljúfrið er um tveggja kílómetra langt og varð til við lok síðustu ísaldar.