Samtök eigenda íslenskra hesta í Bandaríkjunum fordæma blóðmerahald á Íslandi og taka undir með yfirlýsingu Alþjóðasamtaka íslenska hestsins, FEIF, um nauðsyn þess að vernda íslenska hestinn.

Þetta kemur fram í svari frá Will Covert, forseta United States Icelandic Horse Congress.

Fréttablaðið fjallaði fyrir helgi um áhrif fregna um blóðmerahald á ímynd Íslands. Þar greindi Sigrún Brynjarsdóttir, hrossaeigandi sem býr í Bandaríkjunum, að hestaeigendur vestanhafs væru að sniðganga allt íslenskt vegna málsins.

„Viðhorf þeirra hefur ekki breyst gagnvart íslenska hestinum meira gagnvart Íslandi og að þetta sé leyft,“ sagði Sigrún.

FEIF styður bann við blóðmerahaldi

Bandarísku samtökin sendu frá sér stuðningsyfirlýsingu 24. nóvember við eftirfarandi ályktun FEIF:

„Alþjóðasamtök íslenska hestsins, FEIF, fordæmir vinnubrögð og misþyrmingu mera á blóðtökubæjum. Við myndum styðja ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að stöðva innflutning og framleiðslu á PMSG og styðjum heils hugar öll möguleg áform íslenskra yfirvalda um að stöðva þessa grein algjörlega.“

Græni evrópski sáttmálinn tæklar blóðmerahald

Framkvæmdastjórn ESB hefur sett fram það markmið að Evrópa verði fyrsta kolefnishlutlausa heimsálfan fyrir árið 2050. Til þess að ná því markmiði hefur verið kynntur metnaðarfullur aðgerðapakki, Græni evrópski sáttmálinn.

Sáttmálanum er skipt í sjö áhersluatriði en númer sex á listanum er Frá býli til matar (e. From farm to fork) þar sem lögð er meiri áhersla á vegan mataræði. Anja Hazekamp, hollenskur þingmaður á Evrópuþinginu, hélt ræðu um mikilvægi þessa áhersluatriðis.

Í skýrslu Evrópuþings um sérstakar aðgerðir í tengslum við Frá býli til matar er mælt með að stöðva innflutning og framleiðslu á PMSG.

Bóndi slær blóðmeri á leið í blóðtökubás.
Mynd: AWF