Sverrir Halldór Ólafsson hefur verið ákærður fyrir meiri háttar skattabrot og peningaþvætti í rekstri fjögurra einkahlutafélaga, þar á meðal starfsmannaleigunnar Ztrong Balkan.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.

Sverrir er talinn hafa svikið 160 milljónir undan skatti með því að standa hvorki skil á virðisaukaskatti né staðgreiðslu opinberra gjalda. Er hann sakaður um að hafa nýtt fjármunina í annan rekstur sem telst sem peningaþvætti.

DV fjallaði um gjaldþrot starfsmannaleigunnar árið 2020, sem starfaði aðeins í rúmt ár, en í þeirri frétt kemur fram að nokkur fjöldi erlendra starfsmanna hafi verið á launaskrá félagsins.

Félögin og ávinningur af brotum samkvæmt ákæru:

  • K7077 ehf - 15.219.756 krónur
  • S7077 ehf. - 56.399.374 krónur
  • Skjalda - 25.139.980 krónur
  • Ztrong Balkan - 64.910.098 krónur

Alls 161.669.208 krónur. Kristín Ingileifsdóttir sækir málið fyrir hönd héraðssaksóknara og krefst þess að Sverrir verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Hinn ákærði gæti átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi verði hann dæmdur sekur.

Peningaþvætti hefur verið mikið til umræðu upp á síðkastið en stærsti hluti þess fer í gegnum í byggingar- og veitingahúsaiðnaðinn að sögn Gríms Grímssonar hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.