Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hafnar því að skýrsla stofnunarinnar um brunann á Bræðraborgarstíg sumarið 2020 innihaldi huglægar ályktanir sem séu litaðar af afleiðingum brunans. Þrír létust í brunanum. Fyrrverandi íbúar og fjölskyldur þeirra sem létust hafa stefnt eiganda hússins og fara fram á alls 162 milljónir króna í bætur. Málið er á dagskrá dómstóla næsta haust. Vísað er sérstaklega í skýrslu HMS í stefnunni.

Fram kemur í svari HMS við fyrirspurn Fréttablaðsins að markmið skýrslunnar hafi ekki verið að meta sök eða bótaábyrgð einstakra aðila.

„Rannsókn HMS á brunanum byggir á sérfræðimati og fyrirliggjandi gögnum en í flestum tilfellum, líkt og í jafn umfangsmiklu máli sem þessu, þarf að draga fram sem sannasta mynd af atburðarásinni sem gert er með vettvangsrannsókn, líkönum, myndum og myndböndum auk frásagna sjónarvotta,“ segir í svarinu. „Um er að ræða sérfræðimat fagaðila sem búa yfir mikilli reynslu á þessu sviði.“

Guðmundur Gunnarsson byggingarverkfræðingur vann minnisblað þar sem gerðar eru athugasemdir við skýrsluna. Þá sérstaklega að HMS taki mið af teikningum byggingarfulltrúa sem gerðar voru um síðustu aldamót vegna eignaskiptasamnings og vörðuðu aðeins þáverandi eiganda 1. hæðar hússins en ekki 2. og 3. hæð. Húsinu var þó aldrei breytt og óljóst hvers vegna þær hafi verið samþykktar sem svokallaðar reyndarteikningar.

Mynd innan úr húsinu áður en það brann. Eldvarnarteppi er sýnilegt.

Í svari HMS segir að unnið hafi verið með þessi gögn samhliða rannsókn á brunarústunum. Það sé afar slæmt þegar hús séu ekki samkvæmt teikningum, þá sé óheppilegt að ekki hafi verið gerð lokaúttekt á efri hæðum hússins. Er vísað í lög frá árinu 2000 um að tryggja brunavarnir í samræmi við notkun, auk þess að sækja þurfi um tilskilin leyfi vegna breytinga.

Notkun hússins hafi verið önnur en teikningar gerðu ráð fyrir og forsendur því allt aðrar gagnvart brunaöryggi, þar sem breytt notkun hafi kallað á auknar brunavarnir og eldvarnaeftirlit.

Er það málsvörn eigandans að þar sem húsinu hafi aldrei verið breytt í samræmi við teikningarnar frá árinu 2000 sé ekki hægt að gera kröfur til hússins í samræmi við þágildandi byggingar- og brunavarnareglur.

Skúli Sveinsson, lögmaður eigandans, hafnar fullyrðingum í stefnunni á borð við að engin slökkvitæki hafi verið í húsinu. Til séu myndir og myndbönd úr húsinu áður en það brann sem sýni fleiri en eitt slökkvitæki, það hafi verið sent til HMS.

Varðandi reykskynjarana hafi verið búið að taka úr þeim rafhlöðurnar, um sé að ræða þekkt vandamál í sambýlishúsum þar sem verið er að elda og loftræsting ef til vill ekki góð.