Helgi Njálsson, eigandi Forsetans, veitingastaðarins á Laugaveginum þar sem gestir á dansleik keyptu vínveitingar, segir málið vera storm í vatnsglasi.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um dansleik í húsnæði við hlið Forsetans á Laugaveginum um níuleytið í gærkvöldi en gestir dansleiksins voru þar með áfengi um hönd sem keypt hafði verið á Forsetanum á Laugavegi.
Alls voru um 25 einstaklingar í húsnæðinu þegar lögreglan mætti á svæðið flestir með áfengi um hönd og talsverð ölvun. Fólkið sagðist vera að æfa samkvæmisdans sem væri íþrótt og því mættu þau vera 50 saman.
Lögreglan leysti engu að síður upp samkomuna og verða allir sem voru viðstaddir sektaðir fyrir brot á sóttvarna- og áfengislögum. Í dagbók lögreglunnar segir einnig að veitingastaðurinn og ábyrgðarmaður hans eigi von á sekt þar sem gestir yfirgáfu staðinn með vínveitingar en Helgi kannast ekki við það.
„Sannleikurinn í málinu er að þarna er ákveðinn hópur af fólki sem hefur verið með dansæfingar þarna undanfarnar vikur. Það kemur danskennari sem kennir nokkur spor í latíndansi. Það er allur dansleikurinn,“ segir Helgi.
„Þetta er stormur í vatnsglasi. Þau hafa komið hingað síðustu þrjár vikur, þau komu í haust líka og veru að læra dans. Það er allt og sumt,“ bætir hann við en dansinn sem þau eru að æfa heitir Bachakiz.
Helgi sagðist ekki hafa fengið neinar upplýsingar um að það standi til að sekta veitingastaðinn.
„Það þykir mér mjög undarlegt ef svo er. Staðnum var lokað kl. 21 eins og vera ber. Þó það sé eitthvað fólk sem fær einhverja bjóra, fer út og er eitthvað að reykja og skilur bjórglösin eftir á borðinu fyrir utan, það er ekki undarlegasti hlutur í heimi,“ segir Helgi en hann ræddi við lögregluna í gærkvöldi.
„Það komu hingað kurteisir menn í gær, við spjölluðum saman. Það var ábending frá þeim að passa upp á að fólk færi ekki með glösin út. Það var nú allt og sumt. Ef einhverjir menn vilja endilega sekta fólk hægri vinstri þá verða þeir að leggja fram gögn um að eitthvað stórkostlegt hafi gerst,“ segir hann að lokum.