Formenn stjórnarflokkanna hittust í Stjórnarráðinu í gær og stigu fyrstu skref í viðræðum um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir formennina ætla að hittast aftur í dag og að vikan öll verði tekin til að fara yfir stóru línurnar.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ólíklegt að ráðherraskipan verði sú sama, fari svo að framhald verði á stjórnarsamstarfinu.

„Þetta blasir við sem fyrsti kostur,“ sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, eftir þingflokksfund í hádeginu í gær. Ýmis snúin mál væru þó sem leysa þyrfti úr.

„Málefnin eru grunnurinn að því að hægt sé að vinna saman.“

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið harðorðir um umhverfisráðherra Vinstri grænna og ólga hefur verið innan flokksins um heilbrigðisráðherra. Meðal þeirra harðorðu eru Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason en við Fréttablaðið í gær voru þeir fámálir um hver krafa flokksins gagnvart þessum ráðuneytum ætti að vera.

„Við erum mjög ánægð með að sjá að ríkisstjórn sem Katrín Jakobsdóttir leiðir haldi velli og bæti við sig, við viljum meina að það sé vegna starfa ríkisstjórnarinnar,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra og varaformaður Vinstri grænna.

Um stjórnarmyndunarviðræður sagði Guðmundur Ingi: „Katrín hefur að sjálfsögðu umboð okkar til að ræða við hina formennina en það er allt of snemmt að segja til um til hvers það leiðir.“

Um óánægju sumra Sjálfstæðismanna með umhverfismálin og hans störf sagði Guðmundur Ingi ótímabært að ræða áhrif þess á mögulegt samstarf.

„Þau eru bara rétt byrjuð að stinga saman nefjum,“ sagði hann um þreifingar formannanna.

„Katrín hefur að sjálfsögðu umboð okkar til að ræða við hina formennina en það er allt of snemmt að segja til um til hvers það leiðir.“ Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra og varaformaður Vinstri grænna.

Guðlaugur Þór Þórðarson sagði formanninn, Bjarna Benediktsson, hafa fullt umboð þingflokksins til viðræðna og að engir afarkostir hefðu verið settir um forsætisráðuneytið eða neitt annað.

Guðlaugur sagði sér hafa liðið prýðilega í utanríkisráðuneytinu og vildi vera þar á­fram. Hins vegar væru fjölmargir aðrir málaflokkar í samfélaginu spennandi og hann gæti vel hugsað sér að takast á við önnur verkefni.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, sagði verkefnin og málefnin það sem máli skipti. „Við erum ekki þekkt fyr­ir ein­hverj­a af­ar­kost­i á mán­u­deg­i eft­ir kosn­ing­ar en við fund­um hvað­a mál brunnu­ á fólk­i,“ sagði Þór­dís Kol­brún og nefndi heil­brigð­is­mál, lofts­lags­mál, nýt­ing­u auð­lind­a og ork­u­skipt­i.

Spurð hvort hún vild­i vera á­fram í sínu ráðuneyti sagði hún að verk­efn­in þar væru af­skap­leg­a skemmt­i­leg og hún gæti vel hugsað sér að halda áfram með þau en hún væri líka meir­a en til­bú­in að taka að sér önnur verkefni.

Sigurvegarar kosninganna, Framsóknarmenn, funduðu seinni partinn í gær og voru á einu máli um að formaðurinn, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefði óskorað umboð í viðræðunum.

„Það er skýr vilji sem kemur hjá kjósendum um að stjórnin haldi áfram,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. Hún sagðist bjartsýn á að flokkarnir næðu saman um áframhaldandi samstarf.

Frá fundi Framsóknar í gær.
fréttablaðið/sigtryggur ari

Ásmundur Einar Daðason vann óvæntan persónulegan sigur í kosningunum. Hann flutti sig milli kjördæma og var utan þings í flestum skoðanakönnunum en flaug inn á þing strax í fyrstu tölum.

Ásmundur vakti töluverða lukku í félags- og barnamálaráðuneytinu á nýliðnu kjörtímabili.

„Jú, ég hef sagt að mig langar að vera áfram í þessum málum en það veltur auðvitað á stjórnarmyndun,“ sagði Ásmundur, aðspurður um sínar persónulegu áherslur. „Ástæða þess að ég flutti mig til Reykjavíkur var að mig langar að vinna í þessum málum, ef mig hefði ekki langað það, hefði ég bara verið um kyrrt í Norðvesturkjördæmi,“ sagði hann.

Fleiri Framsóknarmenn eru stórhuga eftir kosningasigurinn.

„Við munum væntanlega koma með hugmyndir um innviðaráðuneyti inn í viðræðurnar og einnig skiptingu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins,“ sagði Stefán Vagn Stefánsson, oddviti í Norðvesturkjördæmi.

Með innviðaráðuneyti yrðu húsnæðis- og skipulagsmálin færð undir hatt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknar í Norðausturkjördæmi, á einnig von á að ráðuneyti færist til. Framsóknarflokkurinn leggi áherslu á að fá landbúnaðarmálin og að ýmis verkefni, svo sem skógrækt og jarðnýting, verði færð inn í það ráðuneyti. „Mér finnst eðlilegt að þetta sé allt saman endurskoðað í ljósi nýrrar stöðu,“ sagði hún í ljósi breyttrar stærðar þingflokkanna.