Starfs­menn á sýkla-og veiru­fræði­deild Land­spítalans fundu ó­vænt lager með um sex þúsund pinnum í dag og eru því til um níu þúsund sýna­tökupinnar á landinu. Karl G. Kristins­son, yfir­læknir á deildinin, greinir frá þessu í sam­tali við ríkis­út­varpið.

Eins og fram hefur komið hefur gengið á pinnana undan­farna daga vegna út­breiðslu kóróna­veirunnar. Óttuðust menn á tíma­bili að herða þyrfti skil­yrði fyrir sýna­tökum hér á landi vegna yfir­vofandi skorts á pinnum. „Þetta eru annars konar pinnar sem við vissum eiginlega ekki af en getum notað,“ segir Karl.

Þá bauð stoð­tækja­fram­leiðandinn Össur fram tuttugu þúsund sýna­tökupinna á dögunum. Þeir hafa hingað til verið notaðir í öðrum til­gangi. Karl segir að fyrstu niður­stöður með prófanir á þeim pinnum séu já­kvæðar en fleiri próf verði gerð til að ganga úr skugga um að pinnarnir séu not­hæfar.

„En við viljum fá fleiri próf áður en við erum hundrað prósent á­nægð og setjum þetta af stað,“ segir Karl. Send verði út til­kynning þegar niður­staða liggi fyrir í málinu.