Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, leggur til að almennar húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur sveitarfélaga verði sameinaður í eitt opinbert stuðningskerfi við leigjendur. Það kerfi sem nú er sé of flókið og stuðningurinn nýtist ekki öllum.

„Kerfið er flóknara en það var,“ segir Rún Knútsdóttir, lögfræðingur hjá HMS. „Núna þarftu að sækja um á tveimur stöðum í stað eins áður. Hugmyndin með sérstaka stuðningnum var sú að hann væri frekar á félagslegum forsendum.“

HMS sér um greiðslu almennra húsnæðisbóta en sveitarfélögin bjóða upp á sérstakan húsnæðisstuðning, til viðbótar fyrir þá sem eru sérstaklega tekjulágir og í erfiðum félagslegum aðstæðum. Árið 2016 var slíkur stuðningur lögbundinn, en sveitarfélögin hafa sveigjanleika með útfærsluna. Engu að síður hafa margir sem eiga rétt á honum ekki verið að sækja um.

Félagslegu mati lítið sem ekkert beitt

Farið var í tilraunaverkefni um að samþætta umsóknirnar í tveimur sveitarfélögum, Kópavogi og Skagafirði. Samkvæmt skýrslu HMS leiddi verkefnið í ljós vankanta á tvískiptu kerfi og að hinu félagslega mati væri lítið sem ekkert beitt í útreikningum.

Aðspurð hvers vegna stuðningurinn sé ekki að nýtast öllum segir Rún það tvískipt. Annars vegar að sumir viti hreinlega ekki af þessum möguleika. „Húsnæðisbæturnar frá ríkinu voru hækkaðar töluvert árið 2016 og margir að fá svipaðar upphæðir og þeir fengu samanlagt úr báðum kerfunum áður,“ segir Rún. „Okkur grunar að ekki allir viti af því að þeir eiga líka rétt á sérstaka stuðningnum.“

Hins vegar hafi það komið fram í samtölum við samtök fólks í fátækt, Pepp, að margir veigruðu sér við að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning vegna skammar. Að það væri meira skipbrot að leita á náðir sveitarfélagsins eftir félagslegum stuðningi en að sækja um almennar húsnæðisbætur.

Ójafnræði eftir sveitarfélögum

Árið 2019 greiddu sveitarfélögin 1.500 milljónir króna til tæplega 6.300 manns í sérstakan húsnæðisstuðning. Töluvert ójafnræði er á milli sveitarfélaganna hvað upphæðirnar varðar. Einstaklingur með 350 þúsund króna mánaðarlaun og 150 þúsund króna leigu fengi rúmlega 27 þúsund krónur í sérstakan stuðning í bæði Kópavogi og Hafnarfirði, tæplega 22 þúsund í Reykjavík og aðeins um 11.500 krónur í Reykjanesbæ. Almennar húsnæðisbætur eru rúmlega 30 þúsund í öllum sveitarfélögum fyrir þennan einstakling.

„Sveitarfélögin ákveða sjálf hvernig þau útfæra sinn húsnæðisstuðning. Rétt eins og þau innheimta til dæmis mishá leikskóla- og fasteignagjöld,“ segir hún. „Það er okkar tillaga að kerfið verið einfaldað og á einni hendi.“