Rauði krossinn á Íslandi átti samkvæmt reikningum félagsins 31. desember 2019, rúma fjóra milljarða í eigið fé. Þar af eru rúmir 1,6 milljarðar handbært fé í sjóðum og bankainnistæðum. Skuldir voru þá alls rúmar 506 milljónir.

Í síðustu viku sendi Rauði krossinn frá sér yfirlýsingu þar sem félagið óskaði eftir samtali við stjórnvöld í von um að finna leiðir til að reka verkefni Rauða krossins á annan hátt en í gegnum fjáröflun með spilakössum. Árið 2019 skiluðu spilakassar Rauða krossinum 427 milljónum í tekjur en heildartekjur námu rúmum 2,7 milljörðum.

Spurð hvort fjármagn úr spilakössum sé nauðsynlegt til að reka verkefni Rauða krossins, þegar litið sé til fjárreiða félagsins og í ljósi umræðna um lokun spilakassa og kröfu þess efnis frá Samtökum áhugafólks um spilafíkn (SÁS), segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, að handbært fé myndi einungis standa undir eins árs útgjöldum verkefna sem spilakassarnir fjármagni. Tekjur frá stjórnvöldum, sem námu tæpum milljarði 2019, fari í að greiða kostnað við rekstur ákveðinna verkefna en sjálfsaflafé fari til áhersluverkefna hverju sinni.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

„Dæmi um slík verkefni eru viðbragðshópar og áfallateymi um allt land, Hjálparsíminn 1717, skaða­minnkunarverkefni og vinaverkefni til að rjúfa einangrun ýmissa hópa. Heildarkostnaður af slíkum verkefnum var um 1,5 milljarðar króna á árinu 2019,“ segir Kristín.

Spurð að því hvort þversögn felist í því að framlög úr spilakössum séu nýtt til að bregðast við neyð ákveðinna hópa á sama tíma og þau skapi neyð annars hóps, spilafíkla, segir Kristín að ef ráðist væri í fjáröflun í dag yrði önnur leið valin.

„Þessi fjáröflunarleið nær aftur til áttunda áratugar síðustu aldar með svokölluðum „tíkallaspilum“, sem á þeim tíma fjármögnuðu aðstoð við þá sem lentu í gosinu í Vestmannaeyjum,“ segir Kristín. „Við erum sammála SÁS hvað varðar mikilvægi þess að vernda þann viðkvæma hóp sem glímir við spilavanda. Við teljum rétt að stjórnvöld leiði þá vinnu að koma á einhverju kerfi eins og spilakortum,“ bætir hún við.

Kristín segir það mikilvægt fyrir Rauða krossinn að eiga „fé í handraðanum eins og áföll ársins 2020 sýna“, þó sé það ekki stefna félagsins að safna fjármunum. „Heldur þvert á móti, að verja þeim jafnóðum til góðra verka,“ segir Kristín og vísar í lög Rauða krossins þar sem segir að tekjuskipting og önnur ráðstöfun fjármuna félagsins skuli byggja á gegnumstreymi fjár þar sem tekjur séu nýttar til grunnrekstrar og áhersluverkefna. Undanþeginn þessu sé varasjóður.

Í varasjóði Rauða krossins árið 2019 var 1,1 milljarður króna. Kristín segir sjóðinn til þess að grípa til komi til skjótra og kostnaðarsamra aðgerða í kjölfar alvarlegra náttúruhamfara eða stóráfalla hérlendis.

„Rauði krossinn hefur stórt og þýðingarmikið hlutverk í almannavörnum landsins. Varasjóðurinn er bundinn í lögum félagsins,“ segir Kristín.