Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur borist 136 tilkynningar um möguleg brot á sóttvarnarreglum á síðustu fimm vikum.

Þar af hefur ríflega helmingur þeirra borist á síðustu tveimur vikum en fjöldi þeirra tók mikið stökk eftir að tuttugu manna samkomubann tók gildi þann 5. október síðastliðinn.

Talsverður hluti af starfinu

Að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, fer mikil vinna og tími í að vinna úr ábendingunum.

„Þetta er bara stanslaust sem kemur til okkar og er að koma í gegnum hnappinn [á covid.is] þar sem verið er að tilkynna um þetta og hitt sem við erum bara að meta og afgreiða í rólegheitunum.“

Hann segir að úrvinnslan hafi verið talsverður hluti af starfi embættisins síðustu vikur.

„Það er náttúrlega allt annað í gangi hjá okkur líka, þetta er sami fjöldi lögreglumanna sem við höfum. Þetta bara bætist ofan á önnur verkefni sem þarf að sinna svo það er talsvert að gera í þessu, eðlilega."

Misjöfn túlkun geti flækt úrvinnsluna

Þá bætir Ásgeir við að meiri vinna fari í að túlka reglurnar eftir því sem þær verði óljósari.

„Það er bæði meiri vinna fyrir okkur og það eru allir hinum megin við borðið sem þurfa líka að túlka þetta. Þú túlkar reglur jafnvel ekki á sama hátt og ég.“

Tilkynningarnar sem komi til embættisins snúi bæði að einstaklingum og fyrirtækjum.

„Í tilfelli fyrirtækja þá er það oft sem þær snúast um hvernig fólk er að haga sér þar, til dæmis inn í verslunum að fólk sé ekki að mæta með þolinmæðina að vopni og geti ekki beðið eftir því að fá sína tvo metra til þess að nálgast þessa og hina hilluna eða eitthvað svoleiðis. Það er ekki endilega að það séu of margir inn í viðkomandi verslun.“

Sumir telji að grímuskylda sé í verslunum

Þar að auki segir Ásgeir að grímunotkun í verslunum virðist flækjast fyrir sumum. Í núgildandi reglum er þess krafist að viðskiptavinir beri andlitsgrímur í verslunum ef ekki sé hægt að tryggja þar tveggja metra fjarlægð.

„Núna held ég að það sé orðin regla frekar en undantekning að fólk sé með grímu í verslunum og þá er annað fólk farið að standa út úr.“

Því geti sumir ranglega gert sér í hugarlund að grímuskylda sé til staðar og tilkynna í kjölfarið að fólk hafi sést þar án grímu.

„Það væri ekki verra þó að þetta væri bara afdráttarlausara. Ég held að margir af þessum verslunareigendum og þeim sem eru í forsvari fyrir stærri keðjurnar væru bara þakklátir fyrir að fá grímuskylduna í verslanirnar þeirra. Þeirra hagur og vilji er jú að vernda sitt starfsfólk og sína viðskiptavini.“