Amnesty International segir að það séu mjög rík sönnunargögn sem bendi til þess að stríðsglæpir hafi verið framdir í Kænugarði í bæði febrúar og mars af rússneska hernum en í vikunni kom út ný skýrsla byggð á viðtölum rannsakenda samtakanna við íbúa Bútsja, Borodyanka og Kænugarðs.

Alls greina 45 íbúar í skýrslunni frá því að annað hvort hafa orðið vitni að eða hafa vitneskju um að rússneski herinn hafi drepið ættingja þeirra eða vini. Auk þess greina 39 einstaklingar frá því að hafa orðið vitni að loftárásum sem var beint að íbúabyggð. Nánar hér.

Í bænum Bútsja á enn eftir að auðkenna 200 lík sem fundust í fjöldagröfum og bíða Úkraínskir ríkisborgarar nú í röðum til að láta taka lífsýni svo hægt sé að bera saman við líkin sem enn á eftir að bera kennsl á.

Varað er við myndefni í fréttinni hér að neðan.

Greint er frá því á vef Guardian að enn finnist nýjar grafir í görðum fólks þegar það er að snúa aftur heim. Til að byrja með fundust um 40 til 50 lík á hverjum degi, flest í fjöldagröfum, en nú hefur þeim fækkað. Enn er töluverður fjöldi sem á eftir að bera kennsl á.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu úkraínskra saksóknarans eru nú til rannsóknar yfir tíu þúsund tilfelli stríðsglæpa af hendi rússneska hersins.

Lögreglumaður skoðar lík manns sem fannst nærri bænum Bútsja og var að öllum líkindum myrtur af rússneska hernum.
Fréttablaðið/Getty

11 börnum hleypt út í gær

Björgunarfólk vinnur nú enn hörðum höndum að því að aðstoða fólk undan prísund sinni undir stálverksmiðjunni Azovstal nærri Maríupól á sama tíma og úkraínskir hermenn reyna að koma í veg fyrir að rússneski herinn nái að hertaka borgina.

Tugir voru fluttir úr verksmiðjunni í gær og afhentir fulltrúum Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins en samkvæmt rússneska hernum var um að ræða alls 50 manns og þar af 11 börn. Fólkið hefur verið undir verksmiðjunni í meira en tvo mánuði en fulltrúar bæði Úkraínu og Rússlands hafa fullyrt að það verði haldið áfram um helgina að koma fólki út. Alls eru um 500 búin að fara en enn er dágóður fjöldi inni af almennum borgurum og nokkur þúsund hermenn sem neita að gefast upp.

Unnið er hörðum höndum að því að koma almennum borgurum út undan stálverksmiðjunni.
Fréttablaðið/EPA

Talið er að Vladimír Pútín Rúss­lands­for­seti muni senda Vestur­löndum „dóms­dags­við­vörun“ næsta mánu­dag, 9. maí, er Rússar fagna 77 árum frá sigri Sovét­manna á nas­istum í síðari heims­styrj­öldinni, að sögn Reuters.

Þá er í dag greint frá því á vef AP að úkraínski herinn undirbúi sig undir stórsókn rússneska hersins og er almenningur varaður við því að hlusta vel á viðvaranir um loftskeytaárásir. Þá hefur Volodímír Selenskíj, forseti Úkraínu, varað almenning við því að vera á ferð í skóglendi sem áður var hertekið af rússneska hernum því að þar megi enn finna jarðsprengjur og sprengiþræði.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gaf í gær út sína fyrstu ályktun um innrásina í Úkraínu þar sem kemur fram að þau hafi miklar áhyggjur af friði og öryggi í Úkraínu og lýstu yfir stuðningi við aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna António Guterres og tilraunir hans til að koma á friði. Ekkert er talað um innrás eða stríð í ályktuninni sem er hægt að lesa hér.

Leiðtogar G7 ríkjanna munu á morgun ræða við forseta Úkraínu í myndsímtali og á símtalið að marka stuðning við hann degi áður en Rússar halda upp á Sigurdag sinn. Forseti Bandaríkjanna verður meðal viðmælenda en í gær var tilkynnt um nýjar stuðningsaðgerðir Bandaríkjanna.

Greint var frá því í gær að ítölsk yfirvöld hafi kyrrsett ofursnekkju sem þau telja í eigu forseta Rússlands, Vladimír Pútín.