Bræðra­borgar­stígur 1, þar sem þrír létust í elds­voða í gær, er í eigu HD verk ehf. Í árs­reikningum fé­lagsins frá 2018 er að finna fjórar aðrar eignir á skrá meðal annars Bræðra­borgar­stíg 3.

Sam­kvæmt Þjóð­skrá eru 134 ein­staklingar með skráð lög­heimili á Bræðra­borgar­stíg 3 en eins og Frétta­blaðið greindi frá fyrr í dag voru 73 með lög­heimili sitt skráð á Bræðra­borgar­stíg 1.

Á meðal þeirra sem eru með lög­heimili á Bræðra­borgar­stíg 3 eru 75 Rúmenar, 38 Lit­háar, 9 Lettar, 3 frá Búlgaríu, 3 Ís­lendingar, svo dæmi séu tekin.

Birt stærð hús­næðisins er 191,7 m2 og skiptist það í þrjár í­búðir: Ein sem er 69.0 m2, ein 38.0 m2 íbúð og ein 59.9 m2 íbúð. Þá er 24.8 m2 geymsla.

HD verk hefur átt húsið síðan 2013 en þar var rekið AR Guest­hou­se um tíma. Sam­kvæmt frétt Stundarinnar frá 2015, lokaði Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu gisti­heimilinu í þriðja sinn árið 2015. Síðustu með­mælin sem AR Gisti­húsið hefur fengið á Tripa­dvis­or eru síðan 2016.

Aðrar eignir HD verk samkvæmt árskýrslunni 2018 eru við Kárnesbraut, Hjallabrekku og síðan á Dalvegi.

Sam­kvæmt frétt Vísir.is kom eign HD verk á Dal­vegi ný­verið við sögu hjá Slökkvi­liði höfuð­borgar­svæðisins. Grunur var um að þar væri ó­lög­legt í­búðar­hús­næði og út­lendingar þar til húsa sem störfuðu hér án at­vinnu­leyfis. Lög­reglu­þjónar, slökkvi­liðs­menn, starfs­menn Vinnu­eftir­litsins og ríkis­skatt­stjóra fóru með byggingar­full­trúa á vett­vang við Dal­veg í Kópa­vogi þann 9. júní síðast­liðinn.

HD verk ehf. er í 100% eigu H2o ehf. en sam­kvæmt árs­reikningi H2o ehf., frá 2018, var fé­lagið rúmar 14 milljónir í leigu­tekjur það ár.

Ein a eignum HD verk á Dalvegi. Slökkviliðið skoðaði eignir á Dalvegi, 9. júní sl., vegna gruns um að þar væri ólöglegt íbúðarhúsnæði.
Fréttablaðið/Anton Brink