Jarðskjálftar á Reykjanesskaga hafa verið með minnsta móti síðustu daga, sem kann allt eins að vera svikalogn, að því er Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir. „Við eigum alveg eins von á eldgosi án fyrirvara, úr því sem komið er,“ segir hún.
Kristín segir jarðvísindamenn fylgjast grannt með framvindu mála, ekki síst í ljósi þess að skjálftavirknin eigi upptök sín upp við yfirborðið, á ekki nema tveggja kílómetra dýpi, sem er í námunda við efstu lögin sem jarðhræringar geta átt sér stað í. „Svo kvikan er að minna á sig, eða öllu heldur að ákveða sig þessa dagana,“ segir Kristín og minnir jafnframt á að enn gildi appelsínugul viðvörun á svæðinu.
Ný skjálftahrina hófst norðaustur af Grindavík seint í nóvember á síðasta ári og var áberandi fram í síðustu viku aðventu, en 21. desember mældist sterkasti skjálftinn í þeirri hrinu, 4,9 að stærð, en svo mældust einnig öflugir skjálftar á aðfangadagskvöld, þar af þrír yfir 4 að stærð og sá stærsti 4,8.

Endurtekinn fyrirboði?


Þorvaldur Þórðarson, prófessor í bergfræði og eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir atburðarásina á þessum síðustu dögum nýliðins árs vera endurtekningu frá því á skjálftavikunum í byrjun síðasta árs sem reyndist vera aðdragandinn að því að jörð opnaðist að kvöldi 19. mars og spjó eldi fram eftir sumri. Og endurtekningin sé líklega fyrirboði þess sem koma skal, nú þegar eldgosahrina sé hafin á svæðinu eftir 800 ára hlé.
„Atburðarásin núna er svipuð og fyrir ári – og líkur benda til þess að svona verði þetta næstu árin, það skiptist á skjálftahrinur í nokkrar vikur, lítil eldgos sem vari í nokkra mánuði og svo komi eitthvert hlé á undan næstu hrinu,“ segir Þorvaldur.
Jarðsagan sýni okkur að Reykjanesskaginn, yngsti hluti landsins, hafi hlaðist upp með ótal litlum gosum á borð við það sem gladdi ferðamenn í Geldingadölum og efnismagn þeirra hafi einfaldlega ráðist af lengd þeirra. Þetta eigi bæði við um gos á landi og undan Reykjanesi, en gosin þar árin 1211 og 1226 hafi bæði verið lítil.
„Það eru góðar líkur á gosi núna, klárlega,“ segir Þorvaldur, „en líklega kemur það upp nokkru sunnar við gíginn í Geldingadölum, niðri í Nátthaga eða Nátthagakrika ef marka má miðju skjálftavirkninnar.“