Alls á for­seta­em­bættið á 108 vín­flöskur, 253 bjóra og 50 flöskur af desert­víni og sterku á­fengi. Þetta kemur fram í svari em­bættisins til Fréttablaðsins en ráðs­maðurinn á Bessa­stöðum mætti til vinnu í morgun til að gera könnun á birgða­stöðu í vín­kjallara eftir að fjallað var um það í fjöl­miðlum að vín hafi horfið úr hirslum em­bættisins og verið notað til einka­nota. Í svari for­seta­em­bættisins segir enn fremur að ekki hafi vaknað grunur um mis­notkun starfs­manna sem tengja má við á­fengis­kaup.

Til­efni könnunarinnar eru yfir­lýsingar hæsta­réttar­lög­mannsins, Sigurðar G. Guð­jóns­sonar, um að starfs­maður em­bættisins hafi gengið í vínið eins og hann ætti það en það birti hann á Face­book-síðu sinni í vikunni.

Í til­kynningu for­seta­em­bættisins er enn fremur tekin saman á­fengis­kaup em­bættisins á tíma­bilinu 2010 til 2020. Það má sjá á myndinni hér að neðan.

Áfengiskaup frá 2010 til 2020.

Innlendum viðburðum fjölgað

Í tilkynningunni segir að árið 2017 hafi verið sam­þykkt breyting á lögum um gjald af á­fengi og tóbaki sem af­nam fríðindi æðstu stofnana ríkisins. Frá 2017 hefur em­bætti for­seta Ís­lands því greitt á­fengis­gjöld, sem það var áður undan­þegið. Þá hefur á­fengis­verð einnig hækkað um­tals­vert á liðnum árum.

Þá er vakin at­hygli á því að inn­lendum við­burðum hefur fjölgað á undan­förnum árum og að árið 2019 hafi komið hingað til lands í opin­berar heim­sóknir for­seti Þýska­lands og for­seti Ind­lands, á­samt fjöl­mennu fylgdar­liði og var for­seti Ís­lands gest­gjafi þeirra.

Á­ætlað er að minnsta kosti 8000 gestir komi til Bessa­staða ár­lega til funda, í mót­tökur, máls­verði, verð­launa­af­hendingar eða til annarra við­burða og þiggi þar ein­hverjar veitingar. Ekki er sér­stak­lega haldið utan um það hve margir gestir þiggja á­fengan drykk, en þeir skipta þúsundum á ári hverju.

Á­fengis­veitingar í formi létt­víns eru lang­al­gengastar, en fyrir kemur að sterkt á­fengi sé veitt á smærri við­burðum og er því jafnan hluti af vín­la­ger em­bættisins. Einnig má nefna að sumt af því sterka á­fengi sem keypt hefur verið inn er ís­lensk fram­leiðsla nýtt í kynningar­skyni í mót­tökum for­seta í opin­berum heim­sóknum utan­lands.

Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 18.02.