„Fyrir fjörutíu árum síðan höfðu bæjarfulltrúar metnað til að skipuleggja Eiðistorg sem framúrskarandi miðbæ á Seltjarnarnesi. En síðan hefur tíminn liðið og ekkert gerst. Torgið drabbast bara niður,“ segir Guðmundur Ari Sigurjónsson, oddviti Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi. Flokkurinn hefur lagt fram tillögu um andlitslyftingu Eiðistorgs.

Samkvæmt tillögunni yrði skipaður starfshópur til að bæta ásýnd, viðhald og skipulag miðbæjarsvæðisins. Kynningarfundur og hugmyndasamkeppni yrði um verkefni og viðburði til að glæða torgið lífi og íbúafundur til að ræða tillögurnar og koma með eigin hugmyndir.

„Á torginu eru alls kyns fyrirtæki að berjast við að halda sér í rekstri og laða til sín viðskiptavini. En bærinn hefur misst boltann því að þarna er þakið farið að leka með tilheyrandi óþrifnaði og slysahættu, allar merkingar í rugli og allt viðhald og umhirða um torgið vanrækt,“ segir Guðmundur.

Bendir hann á að árið 2015 hafi verið efnt til arkitektasamkeppni um þróun miðbæjarins en þegar einum hluta vinningstillögunnar var hafnað, er varðaði byggingarmagn á einum reit, var hætt við allt saman og hefur síðan ekkert gerst. Guðmundur segir margt sniðugt hafa komið fram í þessari keppni sem vert sé að dusta rykið af.

„Það vantar mannlíf á Eiðistorg. Nú eru komin þangað alls kyns frumkvöðlafyrirtæki en þjónustufyrirtæki eins og bankinn, pósthúsið og sjoppan eru farin,“ segir hann.

Þegar Eiðistorg var opnað var viðburðadagskrá með tónleikum, listsýningum og fleiru. Þetta er vel gerlegt aftur að mati Guðmundar, sem og að koma fyrir matarvögnum. „Bærinn byggði þetta torg og það er okkar hlutverk að gera það aðlaðandi rétt eins og torg í öðrum sveitarfélögum,“ segir hann. „Eiðistorg hefur alla burði til að iða af mannlífi og fólk vill sækja viðburði á sínum heimastað. Torgið er líka svolítið komið í tísku, til dæmis hjá röppurum sem taka upp myndbönd þarna því að útlitslega er það svolítið fyndið og skemmtilegt.“

Samþykkt var að vísa tillögunni til meðferðar bæjarráðs. Meirihluti Sjálfstæðisflokks tekur undir að tímabært sé að Eiðistorg fái yfirhalningu en telur ráðlagt að fresta þeirri vinnu. Nú sé verið að stofna eitt sameiginlegt rekstrarfélag fyrir torgið og það þurfi að koma að skipulagningunni. Verði þau verkefni sem samþykkt hafa verið, til dæmis sérbýli fyrir fatlað fólk, að hafa forgang hjá skipulagssviðinu.

Guðmundur Ari Sigurjónsson