Jörðin Eiðar á Fljótsdalshéraði hefur nú verið auglýst til sölu en Landsbankinn tók við eigninni af Sigurjóni Sighvatssyni bókmenntafræðingi í lok síðasta árs. Fréttavefur Austurlands, Austurfrétt greinir frá.

Upphaflega stóð til að byggja þar upp alþjóðlega menningarmiðstöð á Eiðum en það gekk ekki eftir.

Svæðið á sér langa og merkilega sögu allt frá landnámi en fyrst var getið um bæinn Eiða í Droplaugarsonasögu og Fljótsdælu. Ingibjörg Þorvarðardóttir, móðir Ólafar ríku, var frá Eiðum og fluttist þaðan þegar hún giftist Lofti ríka hirðstjóra í kringum 1410. Margrét ríka eða Eiða-Margrét, sem var uppi á 16. öld, er sennilega frægasti ábúandinn á Eiðum.

Á Eiðum hefur verið búnaðarskóli, menntasetur og kirkja.

Eiðaskóli.

Helstu byggingar eru teiknaðar af þekktustu arkitektum Íslandssögunnar: Guðjóni Sigvaldasyni, Rögnvaldi Ólafssyni og Sigvalda Thordarsyni.

Heildarstærð jarðarinnar er 768,2 hektarar. Jörðinni tilheyra fasteignir sem samtals eru 4,707 fermetrar. Meðal bygginga er tilheyra Eiðum eru fyrrum skólahús sem hýsti Alþýðuskólann á Eiðum en þar er bæði íþróttahús og sundlaug. Einnig eru í húsinu yfir 20 svefnherbergi sem og íbúð, kennslustofur og samkomusalur samkvæmt upplýsingum á fasteignavefnum Inni.

Sundlaugin á Eiðum.

Þriggja hæða heimavíst skólans fylgir með en þar er rúmgott eldhús og matsalur. Einnig fylgja með þrjár íbúðir sem eru í viðbyggingu við húsið. Gistihús er rekið í öðru húsi en þar eru 20 herbergi til útleigu. Í viðbyggingu er einnig íbúð á tveimur hæðum. Einnig er á svæðinu tveggja hæða hús með tveimur íbúðum á efri hæð. Á neðri hæð hússins er lítil stúdíó-íbúð ásamt geymslum. Tvö einbýlishús tilheyra jörðinni.

Kirkjan á Eiðum.