Alls hafa fjórir Íslendingar orðið heimsmeistarar í sínum aldursflokki í skák. Jón L. Árnason varð fyrstur árið 1977 þegar hann skaut meðal annars Garry nokkrum Kasparov ref fyrir rass á heimsmeistaramóti 17 ára og yngri. Íslendingar þurftu svo að bíða í áratug eftir nýjum heimsmeistara en þá eignuðumst við tvo slíka. Hannes Hlífar Stefánsson varð heimsmeistari 16 ára og yngri og Héðinn Steingrímsson varð heimsmeistari 12 ára og yngri. Árið 1994 vann Helgi Áss Grétarsson síðan sigur á heimsmeistaramóti 20 ára og yngri.

Það verður að teljast óvenjulegt að lítil þjóð eins og Ísland geti státað af slíkum afrekum í keppnisgrein sem nýtur mikilla vinsælda um allan heim. Því fór vel á því að þessi skemmtilega hugmynd, mót heimsmeistara, kæmist í framkvæmd hér á landi. Þrír Íslendinganna, Hannes Hlífar, Héðinn og Helgi Áss, þáðu boð um þátttöku í mótinu en aldursforsetinn, Jón L., kom að mótinu með öðrum hætti. Hann lék fyrsta leik mótsins og veitti áhorfendum innsýn í gang mála með skákskýringum á skákstað.

Mótið var gríðarlega vel skipað og þétt. Enginn einn skákmaður skaraði beint fram úr heldur virtust þeir keppast við að veita hver öðrum skráveifu. Til að byrja með virtust Rússarnir ungu, Mikhail Antipov og Semyon Lomasov, ætla að berjast um sigurinn. Sá síðastnefndi er aðeins 18 ára gamall og vantar einn áfanga til þess að verða stórmeistari. Þegar þrjár umferðir voru til loka mótsins þurfti hann aðeins þrjú jafntefli til þess að tryggja sér titilinn eftirsótta. Rússinn ungi virtist þá fara gjörsamlega á taugum og að lokum tapaði hann öllum þremur skákunum.

Þetta nýtti egypski stórmeistarinn Ahmed Adly sér. Eftir erfiða byrjun, þar sem hann var meðal annars gjörsamlega yfirspilaður af Hannesi Hlífari, beit hann loks í skjaldarrendur og komst í efsta sæti mótsins í 5.umferð og hélt því sæti, með öðrum, allt til loka.

Adly er Íslandsvinur enda er hann einn af nánustu vinum Omars Salama, sem er einn virtasti skákstjóri heims um þessar mundir. Omar er fæddur í Egyptalandi, en er í dag íslenskur ríkisborgari, og hefur þessi tenging hans gert það að verkum að sterkt vinasamband er milli Íslands og Egyptalands á skáksviðinu.

Sigurvegarinn Adly er afar öflugur og útsmoginn skákmaður sem á það til ná frábærum úrslitum. Hann er þó mikið ólíkindatól og á það til að vera nokkuð mistækur. Ef hann kemst í stuð halda honum þó engin bönd. Þannig var hann einn af sigurvegurum Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótsins árið 2006 sem er eitt af hans helstu afrekum. Fórnarlamb hans í síðustu umferð var enginn annar en Magnus Carlsen, núverandi heimsmeistari í skák og sennilega sterkasti skákmaður sögunnar.

Gengi Íslendinga í mótinu var upp og ofan. Ljósið í myrkrinu var taflmennska Hannesar Hlífars sem endaði í þriðja sæti mótsins. Sérstaklega var áðurnefnd skák Hannesar við sigurvegarann Adly frábær.

Skemmtilegustu skákmenn mótsins voru þó sennilega kvenkyns keppendurnir tveir, Sarasadat Khadamalsharieh frá Íran, og Dinara Saduakassova frá Kasakstan. Báðar tvær sókndjarfar með afbrigðum og ótrúlega baráttuglaðar. Þær geta gengið stoltar frá borði en þær deildu 5-6. sæti með 4,5 vinninga.

Samhliða mótinu fóru fram margs konar hliðarviðburðir. Málþing, krakkaskákmót, hraðskákmót, Fischer-Random slemiskákarmót sem og opið skákmót sem var titlað Suðurlandsmótið.

Þar bar stigahæsti skákmaður Íslands, stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson, sigur úr býtum og valtaði yfir alla sjö andstæðinga sína. Hjörvar Steinn var ekki valinn í íslenska skáklandsliðið á dögunum og slík mistök mun enginn þora að gera aftur!