Ópruttnir aðilar grýttu eggjum í hús sem þeir héldu að væri heimili Lilju Katrínar Gunnarsdóttur, ritstjóra DV.
Málið tengist grein sem birtist í síðasta tölublaði DV þar sem myndir af húsum þekktra tónlistarmanna á Íslandi voru birtar ásamt upplýsingum um húsaleigu, fasteignamat og stærð. Lilja Katrín ritstjóri hefur sætt harðri gagnrýni vegna greinarinnar.
Leikarinn Aron Már Ólafsson, sem er einnig þekktur sem Aron Mola, hvatti fylgjendur sína til að sniðganga DV í kjölfarið undir myllumerkinu Sorpmiðill og birti mynd af húsi sem hann hélt að væri heimili Lilju Katrínar.
Ritstjórinn býr þó þar ekki lengur, heldur Bóel og fjölskylda hennar en dóttir hennar vaknaði við eggjakastið eftir að listamennirnir og samfélagsmiðlastjörnurnar birtu mynd af húsi hennar á Instagram.
„Þetta var mjög súrealískt að þurfa að senda skilaboð á Herra Hnetusmjör og Aron Mola um að taka þetta niður,“ segir Bóel í samtali við Fréttablaðið.
Bóel var að halda upp á þrítugs afmæli sitt þegar ungir krakkar ákváðu að mæta fyrir utan heimili hennar og grýta eggjum í húsið.
„Við héldum fyrst að þetta væru krakkarnir í hverfinu að kasta snjóbolta í húsið en svo sáum við eggjaslettur á öllum gluggunum. Þetta var hópur af ungum strákum. Bara börn,“ segir Bóel.
