Unglingspiltur var handtekinn í Melbourne í Ástralíu eftir að hafa „eggjað“ umdeildan þingmann sem þekktur er fyrir öfgafullar skoðanir í garð útlendinga. Þingmaðurinn kýldi svo drenginn. Atvikið náðist á myndband í beinni útsendingu.

Þingmaðurinn, Fraser Anning, komst í kastljós fjölmiðla í gær eftir viðurstyggileg ummæli um hryðjuverkin sem framin voru í Christchurch á Nýja-Sjálandi í gær. 49 manns voru skotin til bana og 48 til viðbótar slösuðust.

Anning hélt því fram að árásin hafi orðið vegna innflytjendastefnu Nýja-Sjálands. Hann hefur tekið sér orðbragð nasista í munn og kallað eftir „lokalausn“ á málefnum múslímskra innflytjenda.

Anning var að ræða við fjölmiðlafólk þegar ungi maðurinn gekk rólega upp að honum, tók upp símann til að ná atvikið á mynd og kramdi egg á höfði þingmannsins. Anning brást ókvæða við og kýldi hinn 17 ára dreng tvisvar í andlitið áður en stuðningsmenn Anning tækluðu drenginn í jörðina.

Drengnum var haldið niðri af stuðningsfólki Anning þar til lögregla kom á vettvang. Greint hefur verið frá því að drengurinn var handtekinn en hefur verið látinn laus án ákæru. Hann slapp ómeiddur úr átökunum.

Þingmaðurinn sjálfur kann einnig að eiga von á ákæru fyrir að hafa ráðist gegn manninum unga, en lögreglan hefur gefið það út við fjölmiðla að það sé val drengsins. Drengurinn, sem hefur verið nefndur „Egg-strákurinn“, hefur af mörgum verið hylltur sem hetja fyrir gjörninginn. Þá hafa ýmsar útgáfur af myndbandinu litið dagsins ljós á netheimum.