Ástralski ung­lingurinn, sem vakti at­hygli fyrir að hafa brotið egg á höfði þing­mannsins Fraser Anning fyrir um­mæli sem hinn síðar­nefndi lét falla, hefur til­kynnt að hann muni gefa stóran hluta af því fé sem hann fær frá vel­gjörðar­fólki til fjöl­skyldna fórnar­lamba hryðju­verka­á­rásanna í Christchurch. 

Willi­am Connolly, sem einkum er kallaður „eggja­drengurinn“ í dag, segir að hann telji að því fé, sem að­dá­endur hans hafa lagt til í lög­fræði­kostnað fyrir hann, sé betur varið til styrktar þeim sem eiga um sárt að binda vegna á­rása hryðju­verka­mannsins í Christchurch. Hinn 28 ára Brenton Tarrant myrti 50 manns þegar hann réðst inn í tvær moskur í borginni Christchurch á föstudag og hóf skot­hríð.

Áður­nefndur Anning lét í kjöl­farið afar ó­smekk­leg um­mæli falla þar sem hann kenndi inn­flytj­enda­lög­gjöf landsins um hryðju­verk Tarrant. Um­mælin féllu ekki vel í kramið hjá Connolly sem braut egg á höfði þing­mannsins þegar hann var í sjón­varps­við­tali. Anning brást ó­kvæða við, launaði „eggja­drengnum“ með tveimur hnefa­höggum og gerði sig lík­legan í frekari barsmíðar áður en þeim var stíað í sundur. 

Búið er að safna yfir 50 þúsund áströlskum dölum, jafnvirði yfir fjögurra milljóna íslenskra króna, á GoFundMe-síðu sem sett var upp í nafni eggja­drengsins Connolly. Ekki liggur fyrir hvort að Connolly bíði ákæra vegna málsins.